Verkfræðingafélagið segir skipan stjórnar HMS vanvirðingu við þá sérfræðimenntun og fagþekkingu sem tæknimenntað fólk býr yfir.
Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) hefur sent Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, bréf með áskorun um að endurskoða skipan í stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) til að tryggja að fagleg hæfni og sérmenntun á sviði mannvirkjagerðar fái raunverulegt vægi við ákvarðanatöku í málaflokknum.
Félagið telur að hin nýlega skipaða stjórn HMS uppfylli ekki þau lögbundnu skilyrði sem gerð eru með viðunandi hætti. Enginn stjórnarmaður búi yfir sérfræðikunnáttu á sviði mannvirkjagerðar og einungis einn stjórnarmaður hafi tengingu við byggingariðnaðinn – sem húsasmíðameistari og fasteignasali.
Í umfjöllun Morgunblaðsins í byrjun mánaðar var bent á að fulltrúar lokks fólksins séu alláberandi í nýkjörinni stjórn HMS. Fjórir af fimm stjórnarmönnum eru úr ranni Flokks fólksins en sá fimmti er skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Skipan stjórnar HMS er ekki einungis vanvirðing við þá sérfræðimenntun og fagþekkingu sem tæknimenntað fólk býr yfir heldur ógnar jafnframt faglegri ákvarðanatöku innan stofnunar sem hefur víðtæk áhrif á öryggi, gæði og sjálfbærni í byggðu umhverfi,“ segir í bréfi Verkfræðingafélagsins.
„Með því að hunsa þessa þekkingu er verið sýna skilnings- og skeytingarleysi gagnvart afar mikilvægum málaflokki þar sem verkefnið er að tryggja gæði bygginga, uppræta byggingagalla sem eru viðvarandi vandamál, styðja við byggingarannsóknir og gæta hagsmuna húseigenda á margvíslegan máta.“
Það er mat Verkfræðingafélagsins að þessi skipan endurspegli alvarlegt metnaðarleysi í garð málaflokksins, á tímum þar sem brýnt er að takast á við stórar áskoranir í mannvirkjagerð.
„Í þessu samhengi skal minnt á fyrri ákvarðanir stjórnvalda sem haft hafa neikvæð áhrif á faglega umgjörð mannvirkjagerðar, svo sem þegar Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var lögð niður. Þá er rétt að nefna að á undanförnum árum eru mörg dæmi um að stjórnendur mikilvægra innviðastofnana sem byggja á verkfræðilegri sérþekkingu hafi verið skipaðir án nokkurrar sérfræðiþekkingar á viðkomandi sviði.“
„Skipan nýrrar stjórnar HMS er því miður enn eitt dæmið um stefnu þar sem fagþekking verkfræðinga, tæknifræðinga og annars tæknimenntaðs fólks er virt að vettugi. Þetta sýnir alvarlegt skilningsleysi stjórnmálafólks á mikilvægi sérfræðimenntunar og djúprar fagþekkingar og hætt er við að það muni hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir þróun og gæði mannvirkja á Íslandi um langa framtíð.“
Heimild: VB.is