Home Fréttir Í fréttum Grunnstoðir iðnnáms á Íslandi eru ekki nægilega tryggðar

Grunnstoðir iðnnáms á Íslandi eru ekki nægilega tryggðar

9
0
Mynd: SI.is

Samtök iðnaðarins hafa skilað umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um framhaldsskóla (282. mál).

Í umsögninni lýsa samtökin áhyggjum af því að veigamiklum athugasemdum, sem samtökin komu á framfæri bæði árið 2023 og í byrjun árs 2025, hafi ekki verið sinnt í frumvarpinu. Samtökin leggja sérstaka áherslu á að grunnstoðir iðnnáms á Íslandi séu ekki tryggðar nægilega, einkum með tilliti til ábyrgðar og framkvæmdar vinnustaðanáms.

Fjármögnun og aðstaða iðnnáms óviðunandi

Í umsögninni er bent á að stórir iðnskólar séu nú þegar fullnýttir og að árlega sé 600–1.000 nemendum hafnað inngöngu í iðnnám vegna skorts á fjármagni og húsnæði. Samkvæmt greiningu SI vantar skólana að lágmarki tvo milljarða króna árlega til að fullnýta aðstöðu og endurnýja búnað í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Samtökin ítreka að nýjar aðgerðir stjórnvalda þurfi að taka mið af þeirri staðreynd að núverandi fyrirkomulag vinnustaðanáms stenst hvorki faglegar né fjárhagslegar kröfur.

Þörf á samþættingu námsbrauta

Í umsögninni gera samtökin athugasemdir við fyrirkomulag námsbrautarlýsinga í iðnnámi. Núverandi kerfi stuðli að því að nemendur eigi erfitt með að flytja nám sitt milli skóla, þar sem vægi áfanga og hæfniþrep eru mismunandi. Samtökin leggja áherslu á að samþætta námsbrautir innan sömu iðngreina og koma á fót gæðakerfi til að tryggja samræmd gæði námsbrauta og betri nýtingu fjármuna.

Vara við breyttu hlutverki framhaldsskóla í vinnustaðanámi

Samtökin gagnrýna ákvæði í frumvarpinu sem tengjast mati á hæfni í vinnustaðanámi. Þau leggja áherslu á að ábyrgð á matsferlinu eigi áfram að liggja hjá meisturum á vinnustað en ekki fulltrúum skóla. Óskýrar tillögur um aukið hlutverk skóla við hæfnimat geti leitt til grundvallarbreytinga á eðli vinnustaðanámsins, sem samtökin vara við.

Þarf réttan skilning á ráðningarsamningum í vinnustaðanámi

Í umsögninni er einnig vikið að mikilvægi þess að framhaldsskólar beri ekki ábyrgð á ráðningarsamningum nemenda. Samtökin undirstrika að ábyrgð á launakjörum og ráðningum sé á milli nemenda og fyrirtækja samkvæmt lögum og kjarasamningum, en ekki hjá skólunum sjálfum. Auk þess er lögð áhersla á skýran greinarmun á almennri starfsþjálfun og vinnustaðanámi í löggiltum iðngreinum.

Jákvæð afstaða til breytinga varðandi einkaskóla

Í umsögninni lýsa SI ánægju með fyrirhuguð ákvæði um endurskoðun á samningum við einkaskóla. Samtökin leggja áherslu á að styrkja stöðu einkarekinna skóla sem bjóða upp á iðn-, tækninám og raunfærnimat, þar sem slík úrræði eru mikilvæg til að mæta aukinni eftirspurn einstaklinga og atvinnulífs eftir sveigjanlegu námi.

Í umsögn sinni ítreka Samtök iðnaðarins að mikilvægt sé að endurskoða tilhögun vinnustaðanáms á faglegan hátt, tryggja viðeigandi fjármögnun og bæta lagaumhverfi framhaldsskóla þannig að það styðji við þarfir nemenda, skóla og atvinnulífs til framtíðar.

Hér  er hægt að nálgast umsögnina.

Heimild: SI.is