Home Fréttir Í fréttum Dæmi um tímakaup upp á tæpar 600 krónur

Dæmi um tímakaup upp á tæpar 600 krónur

131
0
MYND/TIMERULES.ORG

Grunur leikur á brotið hafi verið alvarlega á réttindum starfsmanna á vinnusvæðinu við Bakka norðan Húsavíkur. Dæmi eru um að starfsfólk hafi fengið undir sex hundruð krónur í tímakaup og að það hafi verið svikið um á þriðja hundrað þúsund krónur í hverjum mánuði. Morgunblaðið greindi fyrst frá.

<>

Framsýn stéttarfélag fundaði með lögreglu í síðustu viku til að hafa yfir mál sem komið hafa inn á borð félagsins og varða alvarleg brot á vinnumarkaði á félagssvæðinu, að því er segir á heimasíðu félagsins. Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, segir að um sé að ræða brot af hálfu erlendra undirverktaka, ýmist frá Póllandi og Litháen.

„Við erum að sjá kaup til dæmis, laun í kringum 150 þúsund krónur á mánuði fyrir fulla vinnu, þegar lágmarkslaun eru 250 þúsund á Íslandi til dæmis. Við erum að sjá hugmyndir um tímakaup upp á 588 krónur, sem og kaup upp á 700-800 krónur, sem náttúrulega langt neðan við þær reglur sem gilda á Íslandi,“ segir Aðalsteinn í samtali við Vísi. Brotin séu margvísleg, en að um sé að ræða brot á íslenskum lögum og kjarasamningum.

Hann segir að umræddir starfsmenn vinni um 120 til 130 prósent vinnu, og þannig séu þeir sviknir um hátt í þrjú hundruð þúsund krónur á mánuði. „Miðað við vinnutímann hjá þessum mönnum þá hefði þessi mánuður átt að gefa þeim í kringum 400 þúsund krónur, því þetta eru menn sem vinna umfram fulla vinnuskyldu.“

Aðalsteinn ítrekar að flest allir á svæðinu standi sig vel. Einungis sé um einstaka undirverktaka að ræða, og að vel sé fylgst með öllum þeim sem þarna starfi, en mikil uppbygging á sér stað á þessu svæði.

„Við vinnum þetta á breiðum grundvelli. Það hefur tekist mjög vel að koma í veg fyrir þessi undirboð með þessu eftirliti og skilningi verkkaupa og verktaka sem eru ráðandi verktakar, þannig að við eigum mjög gott samstarf við þá. Í þessari viku erum við með mál sem við erum að fylgja eftir og reynum að leysa. Það eru tvö mál í þessari viku sem við þurfum að leysa og tengjast þessum undirboðum,“ segir Aðalsteinn.

Heimild: Visir.is