Gunnar Ingi Bjarnason byggingafræðingur greiddi ásamt öðrum rúma tvo milljarða fyrir byggingarlóð á Hlíðarenda. Hann segir stefnu sveitarfélaganna, ekki síst borgarinnar, ýta undir lóðarverð en fyrir vikið verði nýjar íbúðir dýrari.
„Lóðirnar eru því dýrar og það fylgir því mikil áhætta að fara af stað í svona verkefni. Ég er búinn að vera í þessu í 13 ár en bý vel að því að starfa með mönnum sem hafa síðustu 40 árin verið að byggja og selja íbúðir. Þannig að menn kunna að sigla í gegnum svona ástand. Lóðarverð er orðið hátt og því fylgir aukin áhætta.
Það er víðar hátt en í Reykjavík. Til dæmis seldust einbýlishúsalóðir í Hnoðraholti á 40-50 milljónir. Það er því verið að hámarka verð á lóðum í fjáröflunarskyni fyrir sveitarfélög. Það eltir skottið á sér,“ segir Gunnar Ingi.
Taka alla áhættuna
„Ef lóðaverð hækkar þá hækkar fasteignaverðið og koll af kolli. Við sem kaupum lóðirnar tökum hins vegar alla áhættuna. Þótt við séum ekki í góðgerðarstarfi gerum við okkur grein fyrir að við erum að byggja heimili fyrir fólk en það er hugarfar sem manni finnst stundum vera á undanhaldi,“ segir Gunnar Ingi.
Nánar er rætt við hann um íbúðamarkaðinn í ViðskiptaMogganum í dag.
Heimild: Mbl.is