Verið er að brjóta niður sex íbúðir í hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík. Íbúðirnar fóru illa í jarðhræringunum í nóvember 2023.
„Þetta er bara brotið niður með stórum vélum sem eru með fullt af tækjum sem henta í hvern verkþátt. Svo er reynt að flokka þetta eins vel í sundur og hægt er þannig að allt fari sína réttu leið,“ segir Sigmar Edvardsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Hringrásar, annars tveggja fyrirtækja sem rífa húsið. Það er mikið verk að rífa og það tekur nokkra daga.
Byggingin stendur á sprungu og fór illa í jarðhræringunum 2023. Sigurður Rúnar Karlsson, eigna- og veitustjóri hjá Grindavíkurbæ, segir að það hafi strax verið ljóst að þar varð altjón. Þá hafi nýbygging við hliðina á húsinu verið farin að láta á sjá vegna þrýstings. Niðurrif heldur áfram að þessu loknu og búið er að veita heimild til að rífa þó nokkur skemmd hús í bænum.
Heimild: Ruv.is