Home Fréttir Í fréttum Laxá III – Breytingar við inntak

Laxá III – Breytingar við inntak

181
0

Verkís hefur frá árinu 2014 unnið að og nú lokið hönnun á breytingum á stíflu og inntaki Laxárvirkjunar III í Laxárgljúfrum í Þingeyjarsveit.

<>

Tilgangur breytinganna er að auðvelda rekstur virkjunarinnar. Reksturinn er plagaður af ís og aurburði að vetri til. Dæmi eru um að ísmagnið sé svo mikið að knýja þurfi vélarnar með rafmagni til þess að koma í veg fyrir stöðvun í stað þess að þær framleiði rafmagn. Slit á vélbúnaði er tvöfalt hraðara en í öðrum virkjunum Landsvirkjunar. Að auki geta stórir steinar, allt að 40-50 cm, borist inní vél með ís.

Lausn okkar, í þessu skrefi, felst í því að reisa nýtt inntak inni í inntakspollinum (tölum hér um poll en ekki lón því rýmdin er einungis 0,03 Gl) með ísfleytingaryfirfalli að ofan. Ísfleytingaryfirfallinu er ætlað að fleyta ís sem flýtur í yfirboðinu og berst að inntakinu, framhjá virkjuninni. Tilgangurinn með þessu fyrirkomulagi er að koma í veg fyrir að pollinn leggi eða að hann fyllist af ís sem berst að honum með „rólegum“ hætti, þ.e.a.s. ekki í þrepahlaupi heldur með venjulegu rennsli árinnar.

Í inntakinu verða gerðar tvær gryfjur með aurskolunarbúnaði frá norska fyrirtækinu SediCon en þeir sérhæfa sig í aurskolunar­lausnum þar sem takmarkið er að skola aur úr setgryfjum á öruggan hátt með sem minnstu vatns­magni. Þeirri ytri er ætlað að taka við öllum aur, svo sem sandi, möl og stærri steinum og ræður skolunarbúnaðurinn þar við grjót með þvermál allt að hálfum meter. Sú innri er stærri, 20 m x 10 m, og er ætlað að skola út sandi og möl en á milli gryfjanna verður komið fyrir ristum í neðri hluta inntaksins til draga úr líkum á því að stórir steinar komist lengra en í ytri gryfjuna.

Framkvæmdir eru hafnar og miðað við að þeim ljúki á þessu ári. Verktaki er LNS Saga.

Heimild: Verkís.is