Opnað var fyrir umsóknir um hlutdeildarlán fyrir marsmánuð í vikunni. Á fyrsta degi bárust umsóknir fyrir rúmlega 400 milljónir króna sem er nærri fimmtungi meira en úthlutað verður í mánuðinum.
Sótt var um hlutdeildarlán fyrir 416,7 milljónir króna á fyrsta degi eftir að opnað var fyrir umsóknir fyrir marsmánuð. Það er nokkuð umfram heildarupphæðina sem er til úthlutunar, þ.e. 350 milljónir króna. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) opnaði fyrir umsóknir fyrir marsúthlutun á fimmtudag. Á fyrsta degi bárust 28 umsóknir, þar af 24 af höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir að ef fjármagn sem er til úthlutunar dugar ekki til þá þurfi að draga af handahófi úr umsóknum þeirra umsækjenda sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána. „Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir á vef Stjórnarráðsins.
Hlutdeildarlán eru úrræði sem stendur fyrstu kaupendum til boða sem og þeim sem ekki hafa átt íbúð síðustu fimm ár. Til að geta hlotið slíkt lán þarf umsækjandi að hafa tekjur undir ákveðnum mörkum og eiga að minnsta kosti 5% útborgun. Þannig getur umsækjandi fengið hlutdeildarlán fyrir allt að 20% af kaupverði íbúðar, geng því að eiga 5% útborgun. Restin af kaupverðinu er svo fjármögnuð með hefðbundnu húsnæðisláni.
62% veittra lána á höfuðborgarsvæðinu
Á vef stjórnarráðsins segir að frá því að hlutdeildarlán voru fyrst veitt árið 2020 hafa slík lán verið veitt til kaupa á 989 íbúðum. Heildarfjárhæð hlutdeildarlána nemur nærri 10,2 milljörðum króna.
Á vef HMS má sjá hvernig hlutdeildarlánin dreifast yfir landið. Um fjórðungur veittra lána er vegna kaupa á íbúðum í Reykjavík, alls 249. Þar á eftir kemur Hafnarfjörður þar sem 195 íbúðir hafa verið keyptar með hlutdeildarlánum. 62% veittra lána hafa verið á höfuðborgarsvæðinu.
Heimild: Ruv.is