
Samkvæmt tilkynningu hefur Jörfi ehf. pípulagna- og véltækniþjónusta, tekið til starfa í nýju 550 fermetra húsnæði við Nesflóa 1, í Grænum iðngörðum á Akranesi. Fram kemur að Jörfi veiti alhliða pípulagnaþjónustu ásamt véltæknilegri þjónustu og ráðgjöf til viðskiptavina.
Eigendur og forsvarsmenn Jörfa ehf. eru þrír: Óttar Þór Ágústsson, Bjarki Óskarsson og Einar Pálsson. Auk þeirra fer Merkjaklöpp samstæðan með eignarhlut í fyrirtækinu, en Merkjaklöpp hefur látið vel til sín taka við þróun og uppbyggingu Grænna iðngarða í Flóahverfi.
„Við búum allir að mikilli reynslu á sviði pípulagna, vélvirkjunar og stálsmíði og ætlum okkur að byggja upp stórt og öflugt fyrirtæki á þessu sviði,“ segir Óttar Þór Ágústsson framkvæmdastjóri.
Heimild: Mbl.is