
Holtaskóli hefur verið hjarta skólasamfélagsins í Reykjanesbæ í áratugi. Þar hafa ótal kynslóðir nemenda lært, leikið sér og skapað minningar. Vorið 2022 hófst metnaðarfullt verkefni þar sem skólinn var lokaður tímabundið, vegna rakaskemmda, til að ráðast í umfangsmiklar endurbætur.
Í kjölfarið þurfti að flytja starfsemina yfir í önnur húsnæði, þar á meðal íþróttahúsið, Hljómahöll, Keili og húsnæði á malarvellinum. Þetta var mikil áskorun fyrir nemendur, kennara og starfsfólk, sem sýndu mikla seiglu og aðlögunarhæfni á þessum krefjandi tímum.
„Starfsfólk skólans sem og nemendur eiga heiður skilið fyrir seiglu, þolinmæði, útsjónarsemi og jákvæðni í mjög svo krefjandi aðstæðum. Sama á við um alla þá sem tóku á móti okkur með opnum örmum og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að við gætum hafið skólastarf á nýjum stöðum,“ segir Helga Hildur Snorradóttir, skólastjóri Holtaskóla.
Til að bregðast við aðstæðunum hófust framkvæmdir við endurbyggingu skólans með það að markmiði að bæta aðstöðu og tryggja öruggt og nútímalegt námsumhverfi. Nú hafa framkvæmdir gengið afar vel og annar áfangi var afhentur í byrjun janúar. Í honum eru átta kennslustofur, þar sem nemendur í 6. og 7. bekk eru á neðri hæð og Eikin á efri hæðinni. Skipulagið á neðri hæð hefur tekið miklum breytingum, þar sem gangurinn var færður og fjórar kennslustofur settar í stað tveggja fyrri stofna og heimilisfræðistofu. Skipulagið á efri hæðinni hefur að mestu haldist óbreytt, en þar eru fjórar kennslustofur líkt og áður.
Líkt og á unglingagangi hefur allt verið tekið í gegn, með nýrri hljóðvist og endurbættum aðstæðum. „Það er bókstaflega allt nýtt, hljóðvistin einstök og breytingarnar einstaklega vel heppnaðar,“ segir Helga Hildur. Í lok febrúar verður kaffistofa starfsfólks færð tímabundið þar sem bókasafnið var áður, ásamt því að þrjú skrifstofurými bætast við. „Þetta verður mikil bylting fyrir okkur þar sem við höfum fram að þessu komið okkur fyrir á kaffistofunni,“ bætir Helga Hildur við. Hluti matsalsins verður einnig nýttur til að útbúa afdrep fyrir nemendur í 8.-10. bekk.
Í dag er Holtaskóli starfandi á tveimur stöðum – nemendur í 1.-5. bekk eru á malarvellinum en nemendur í 6.-10. bekk eru í Holtaskóla. „Það fer ágætlega um okkur í dag en við hlökkum mikið til að sameinast á ný og geta sinnt skólastarfi við kjöraðstæður þar sem öllum líður vel í leik og starfi,“ segir Helga Hildur.
Hönnun skólans hefur verið unnin með þarfir nemenda og starfsfólks í huga. Áhersla hefur verið lögð á aðgengismál og að tryggja jafnræði fyrir alla. Skipulagið gerir einnig ráð fyrir fjölbreyttum kennsluháttum með felliveggjum í stofum á yngsta stigi og einni stofu á unglingagangi, sem gerir kleift að opna á milli rýma. Auk þess eru glerrými sem tengja kennslustofur og skapa betra flæði. Lagt hefur verið upp með að skapa framúrskarandi vinnuumhverfi með tilliti til litavals, hljóðvistar, loftræstingar og lýsingar. „Við erum afar spennt fyrir þessum breytingum og hlökkum til að nýta þessa nýju möguleika í kennslu,“ segir Helga Hildur að lokum.
Framkvæmdirnar eru ekki aðeins mikilvægar fyrir nemendur og starfsfólk skólans, heldur einnig fyrir samfélagið í heild. Með endurbótunum verður Holtaskóli fyrirmyndar skólaumhverfi sem styður við skapandi og fjölbreytta kennsluhætti, eykur vellíðan nemenda og starfsfólks og tryggir gott aðgengi fyrir alla. Þessar breytingar eru mikilvægur áfangi í þróun menntunar í Reykjanesbæ og tryggja að Holtaskóli verði áfram öflug menntastofnun fyrir komandi kynslóðir.
Heimild: Reykjanesbaer.is