Home Fréttir Í fréttum Ráðherranefnd: Nauðsynleg uppbygging hjúkrunarheimila tefjist ekki frekar

Ráðherranefnd: Nauðsynleg uppbygging hjúkrunarheimila tefjist ekki frekar

14
0
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra stýrir ráðherranefnd um öldrunarmál. RÚV – Skjáskot

Nauðsynleg uppbygging og framtíðarsýn hjúkrunarheimila má ekki tefjast frekar að mati nýrrar ráðherranefndar um öldrunarþjónustu. Hún hélt sinni fyrsta fund í vikunni. Forsætisráðherra stýrir nefndinni og bindur vonir við störf hennar.

<>

Ný ráðherranefnd um öldrunarþjónustu leggur áherslu á að nauðsynleg uppbygging og framtíðarsýn varðandi hjúkrunarheimili í landinu tefjist ekki frekar. Uppbygging hjúkrunarheimila var sérstaklega rædd á fyrsta fundi nefndarinnar í vikunni.

Þar ræddu ráðherrarnir um fjármögnun uppbyggingar og þjónustu slíkra heimila, stöðu framkvæmdaáætlunar og fyrirséða þörf fyrir rými. Framkvæmdaáætlunin verður endurskoðuð til samræmis við þörfina og tillögur að leiðum til fjármögnunar verða kannaðar, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra stýrir nefndinni en hún er nýlunda í stjórn málaflokksins. Kristrún segist binda miklar vonir við störf nefndarinnar og áréttar að þrátt fyrir þær áskoranir sem fylgi öldrun þjóðarinnar sé eldra fólk almennt hraustara en áður og búi að stærstum hluta í eigin húsnæði.

Þá stöðu vilji ríkisstjórnin styðja eins og kostur sé. „ Í stefnumörkun um málaflokkinn þarf að horfa til fjölbreytileika hóps eldra fólks og mismunandi þarfa hvað varðar húsnæði, heilbrigðisþjónustu og félagslegan stuðning,“ segir Kristrún.

Auk hennar eiga fast sæti í ráðherranefnd um öldrunarþjónustu þau Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að efla samráð og samhæfingu meðal þeirra ráðuneyta sem vinna að málefnum eldra fólks.

Heimild: Ruv.is