Home Fréttir Í fréttum Niðurstöður úr samkeppni um rammaskipulag Lyngássvæðis

Niðurstöður úr samkeppni um rammaskipulag Lyngássvæðis

62
0
Grunnmynd vinningstillögu:

Bæjarstjórn Garðabæjar ákvað síðastliðið haust að efna til samkeppni um rammaskipulag Lyngássvæðis og svæðisins við Hafnarfjarðarveg.  Samkeppnin var opin hugmyndasamkeppni og framkvæmd hennar var í samstarfi við Arkitektafélag Íslands.

Niðurstöður dómnefndar liggja nú fyrir og voru þær kynntar þriðjudaginn 28. júní 2016. Alls bárust 11 tillögur og voru fjórar þeirrar verðlaunaðar.

Í fyrsta sæti var sameiginleg tillaga arkitektastofunnar Batteríið-Arkitektar, landslagsarkitektastofunnar Landslags og verkfræðistofunnar Mannvits. Í öðru sæti var tillaga Arkitektastofunnar JTP, Viaplan og Alta ehf.   Tvær arkitektastofur deildu síðan með sér 3. og 4. sæti en það voru Arkitektastofurnar Felixx og Jvantspijker ásamt verkfræðistofunni VSÓ ráðgjöf annars vegar og Ask arkitektar hins vegar.

Tillögurnar verða til sýnis á Garðatorgi dagana 28. júní til 8. júlí frá kl. 13-18. Sýningarstaður er í sýningarsal á hæðinni fyrir ofan bókasafnið þar sem Sportland var áður til húsa.  Bílastæði eru austan megin við húsið og þar er hægt að ganga beint inn í salinn.
Jafnframt er hægt að sjá plansa frá öllum tillögum hér á vef Garðabæjar.

Í dómnefnd sátu Áslaug Hulda Jónsdóttir bæjarfulltrúi og formaður dómnefndar, Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir skipulagsfræðingur, Brynjar Darri Baldursson arkitektanemi, Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og Helgi Mar Hallgrímsson arkitekt.

Niðurstöður dómnefndar – umsagnir (pdf-skjal)

Umsögn dómnefndar um vinningstillögu er eftirfarandi:

Tillagan byggir á sterkri heildarsýn sem hnýtir saman Lyngássvæði, Hraunsholtslæk og Hafnarfjarðarveg á sannfærandi hátt.  Höfundar gera ráð fyrir stokkalausn allt frá Litlatúni suður að Hraunsholti og skapa um leið góða götumynd við Hafnarfjarðarveg.

Jafnframt gengur tillagan upp án stokkalausnar. Við miðsvæðið er vel útfært torg með tjarnarsvæði mótað af Hraunsholtslæk.  Þar er einnig gert ráð fyrir blandaðri byggð, samgöngumiðstöð og bílastæðakjallara sem hægt er að samnýta Ásgarði á álagstímum.

Tillaga að nýrri aðkomu að Grundum gefur Hraunsholtslæk aukið vægi þar sem lækjarsvæðið myndar óslitin grænan ás niður að Sjálandi með opnum tengingum við íbúðabyggð Lyngássvæðis.  Íbúðabyggðin skartar fjölbreyttum húsaþyrpingum með skjólgóðum og sólríkum innigörðum auk góðra vegtenginga sem auðveldar umferðarflæði um hverfið og tengir vel við aðliggjandi byggð.

Gönguleið frá efri Ásum niður að Hraunsholtslæk í gegnum Lyngáshverfið tengir saman græn svæði íbúðabyggðarinnar og myndar áhugaverðar tengingar á milli húsa.  Hins vegar er byggingarmassi og þéttleiki hverfisins heldur mikill og auka þyrfti hlutfall smærri húsagerða og fjölbreytni.  Hlutfall bílastæða neðanjarðar er fremur hátt og huga þyrfti að fjölbreyttari bílastæðalausnum.  Tillagan er mjög vel unnin og fallega framsett með einföldum og góðum skýringarmyndum.

Sú heildarsýn sem sett er fram í tillögunni svarar að mati dómnefndar best flestum af þeim áherslum sem settar eru fram í keppnislýsingu.  Umferðar- og göngutengingar, útfærsla grænna svæða og byggð við Hafnarfjarðarveg eru sérstaklega vel leyst í tillögunni.

Sjá plansa og myndir hér.

 

Previous articleBlönduósbær hefur látið hanna nýja göngubrú yfir í Hrútey
Next articleEkki hönnuð út frá teikningu Guðjóns Samúelssonar