Home Fréttir Í fréttum Ekki hönnuð út frá teikningu Guðjóns Samúelssonar

Ekki hönnuð út frá teikningu Guðjóns Samúelssonar

251
0
Teikning frá Guðjóni Samúelssyni

Ekki er gert ráð fyrir því í hönnunarsamkeppni um nýja skrifstofubyggingu Alþingis að húsið verði hannað út frá gömlum teikningum Guðjóns Samúelssonar. Húsið verður fjögur þúsund og fimm hundruð fermetrar að stærð samkvæmt auglýsingu sem Alþingi birti á mánudag.

<>

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra lagði áherslu á að skrifstofubyggingin sem á að rísa á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu yrði hönnuð út frá gömlum teikningum Guðjóns Samúelssonar fyrrverandi húsameistara ríkisins. Tillaga þessa efnis var síðan samþykkt í ríkisstjórn.

Um er að ræða hús sem Guðjón teiknaði fyrir um hundrað árum en Sigmundur sagði í viðtali við Stöð 2 í fyrra að byggingin falli vel að umhverfinu.

Alþingi auglýsti á mánudag eftir hugmyndum um nýja skrifstofubyggingu en ekkert er minnst á þessa teikningu Guðjóns Samúelssonar í samkeppnislýsingu. Einungis að við hönnun hússins verði tekið tillit til nálægra bygginga og þá sérstaklega Alþingishússins.

Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Allþingis segir að sérstök dómnefnd muni svo velja bestu tillöguna.

„Þær teikningar sem sýndar voru hér fyrir einu ári voru frá allt öðrum stað og undir allt aðra starfsemi. En kjarni hugmyndarinnar er alveg sá sami og er í áherslum dómnefndar. Þ.e. að hér rísi hús sem er í eðlilegum tengslum við arkitektúrinn á Alþingishúsinu,“ segir Helgi.

Búist er við því að framkvæmdir hefjist á næsta ári og að þeim ljúki árið 2019. Heildarkostnaður er áætlaður um 2 til 2,5 milljarður.

Helgi segir að byggingin bjóði upp á mikla hagræðingu en Alþingi leigir nú húsnæði á fjölmörgum stöðum í miðborginni.

Heimild: Vísir.is