Fasteignaþróunarfélagið Íslenskar fasteignir og landeigendur Heiðarlands Vogajarða í Sveitarfélaginu Vogum hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu verslunar- og þjónustukjarna við gatnamót Reykjanesbrautar og Vogavegar. Á svæðinu, sem er um 10 hektarar að stærð, er gert ráð fyrir að rísi allt að 30 þúsund fermetra verslunar- og þjónustuhúsnæði. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Samkomulagið er afar þýðingarmikið fyrir íbúa Sveitarfélagsins Voga enda fyrirséð að sú uppbygging sem hefur átt sér hér stað mun halda áfram á komandi árum. Þá getur hið nýja verslunarsvæði orðið gríðarleg lyftistöng fyrir svæðið í heild sinni,“ segir Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga.
„Það er þörf á uppbyggingu verslunar- og þjónustu fyrir ört vaxandi samfélag en um leið felast tækifæri í þjónustu við erlenda ferðamenn sem fara um svæðið sem og íbúa höfuðborgarsvæðisins. Staðsetning sveitarfélagsins er þannig hagfelld hvað varðar nálægð við bæði Keflavíkurflugvöll og höfuðborgarsvæðið.“
Síðasta áratug hefur langmesta íbúafjölgunin verið á Reykjanesi, eða um 43%. samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þeir voru ríflega 21.000 árið 2015 en um 31.000 í byrjun árs 2024. Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað um tæp 19%. Þá er gert ráð fyrir að um 2,5 milljónir ferðamanna fari um Keflavíkurflugvöll á næsta ári.
Gunnar Thoroddsen, stjórnarformaður Íslenskra fasteigna, segist bjartsýnn á tækifærin sem felast í uppbyggingu á svæðinu og þjónar stækkandi hópi íbúa á Reykjanesinu. Vogar séu vel í sveit settir vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið og Reykjanesbæ.
„Á sama tíma felast mikil tækifæri í núverandi ferðamannastraumi sem á leið um Keflavíkurflugvöll og til höfuðborgarsvæðisins. Lóðin er frábærlega staðsett við eina helstu umferðaræð landsins,“ segir Gunnar. Vonast er til að uppbygging geti hafist á næstu tveimur til þremur árum en nú tekur við undirbúningur að skipulagsbreytingum, hönnun og samningum við rekstraraðila.
Heimild: Vf.is