Home Fréttir Í fréttum Mestu framkvæmdir í sögu Norðurlands eru komnar á fulla ferð á Húsavík

Mestu framkvæmdir í sögu Norðurlands eru komnar á fulla ferð á Húsavík

87
0
Mynd: STÖÐ 2/FRIÐRIK ÞÓR HALLDÓRSSON

Mestu framkvæmdir í sögu Norðurlands eru komnar á fulla ferð á Húsavík. Stálgrind að fyrstu verksmiðjubygginguni á Bakka er risin. Heimamenn segjast aldrei hafa séð önnur eins umsvif.

<>

Árum saman voru sýndar fréttamyndir af auðri iðnaðarlóðinni á Bakka. En nú er það allt orðið breytt. Þetta er orðið eitt mesta framkvæmdasvæði Íslands.

Þar reisir þýska félagið PCC kísilver fyrir 37 milljarða króna. Stálgrind að hráefnisgeymslu er þegar risin og vinna í grunni ofnhússins er komin vel á veg. Aðalverktaki er einnig þýskur, SMS-group.

„Ég held að eina sambærilega verkið sé uppbygging álversins fyrir austan. Þar var skalinn náttúrlega ennþá stærri og samfélagið minna. En við höfum aldrei séð neitt annað eins og þetta er það stærsta sem hefur komið á Norðurlandi, allavega,“ segir Snæbjörn Sigurðarson, verkefnisstjóri hjá Norðurþingi.

Starfsmenn á Bakka eru nú um 200 talsins en þeim á eftir að fjölga eftir því sem umfang framkvæmdanna vex. Snæbjörn segir að á Húsavík nái framkvæmdirnar hámarki í haust þegar starfsmannafjöldinn fari upp í 600 manns.

Uppbyggingin á Bakka er aðeins einn þátturinn en samhliða er unnið að hafnargerð á Húsavík og gerð jarðganga frá höfninni að Bakka. Á Þeistareykjum er svo verið að reisa jarðvarmavirkjun auk þess sem lögð verður háspennulína á milli.

Snæbjörn segir að þegar allt sé tekið saman megi áætla að verið sé að fjárfesta á svæðinu fyrir 80 milljarða króna á þeim tveimur til þremur árum sem framkvæmdirnar taka.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir íbúa jákvæða gagnvart þessum miklu umsvifum.

„Hér er auðvitað verið að styrkja innviði til þess að taka við fjölbreytara atvinnulífi og styrkari stoðum undir atvinnulíf hérna í sveitarfélaginu og á svæðinu í heild. Þannig að heilt yfir þá eru menn auðvitað bara jákvæðir og brosa inn í framtíðina.

En umsvifum fylgja auðvitað árekstrar og pústrar, eins og eðlilegt er, en hingað til hafa menn bara náð að leysa það sem upp hefur komið,“ segir sveitarstjóri Norðurþings.

Heimild: Visir.is