Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Nýr Landspítali rís hratt

Nýr Landspítali rís hratt

19
0
Nýr meðferðarkjarni rís við Hringbraut. Búið er að klæða húsið að utan og framkvæmdir nú snúa að frágangi innanhúss. – RÚV

Framkvæmdir við nýjan Landspítala ganga vel. Bílastæða- og tæknihús verður klárt um páskana. Heildarkostnaður við verkefnið nemur um 200 milljörðum.

<>

Nýr Landspítali rís hratt og framkvæmdir á árinu snúa að mestu að frágangi innanhúss. Nýr spítali kostar um tvö hundruð milljarða króna.

Búið er að setja upp útveggi á meðferðarkjarnanum og undirbúningur er hafinn við innivinnu á legudeildunum, sem verða á fimmtu og sjöttu hæð.

Bílastæða-og tæknihús verður klárt um páskana.

Gunnar Svavarsson ræðir við fréttamann.
RÚV

Meðferðarkjarninn er um 70 þúsund fermetrar og er eitt stærsta hús á Íslandi. Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala, segir húsið vera átta hæðir.

„Það eru tveir kjallarar þannig að húsið er sex hæðir hér á Burknagötunni. En fimm hæðir ofan götu við Hrafnsgötuna. Og tvær efstu hæðirnar, sem eru á fjórum stöngum af fimm eins og sjá má á byggingunni, þær eru með legudeildarrými, þar eru einstaklingsherbergi, 200 talsins.“

Frá byggingu meðferðarkjarnans.
Kastljós / RÚV

Stefnt er að því að taka meðferðarkjarnann í notkun 2029

Gunnar segir ráðgert að skila meðferðarkjarnanum 2028 en að þá eigi eftir að koma upp tækjum og búnaði.

„Ég er að vonast til þess að starfsemin verði komin í gagnið 2029.“

Framkvæmdin er sú dýrasta á Íslandi til þessa. Uppfærð heildaráætlun kostnaðar var gefin út í fyrra og þar kom fram að uppbyggingin standist kostnaðaráætlanir, með 0,6% frávikum.

Tölvuteiknuð mynd af nýjum meðferðarkjarna við Grensás.
Nýr Landspítali / Nordic Office

Á árunum 2024 til 2030 er gert ráð fyrir að kostnaðurinn sé um 120 milljarðar. Heildarkostnaður er þó mun hærri.

Gunnar segir að vinna sé hafin við uppbyggingu endurhæfingardeildarinnar á Grensás og við tíu þúsund fermetra hús á Akureyri. Hann segir að heildarkostnaður sé á annað hundrað milljarða.

Heimild: Ruv.is