
Um fimm hundruð nýjar íbúðir verða byggðar í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á næstu árum en í dag eru þar um þrjátíu íbúðir. Ástæðan fyrir þessari miklu uppbyggingu er flutningur fólks í sveitarfélagið vegna virkjanaframkvæmda og annarra framkvæmda í ferðaþjónustu eins og byggingu hótels og baðlóns í Þjórsárdal.
Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps var gestur á opnum fundi í vöfflukaffi Framsóknarflokksins í Árborg, sem fór fram á Selfossi í gær. Á fundinum fór Haraldur vítt og breitt yfir sviðið í sveitarfélaginu og ræddi meðal annars um orkumál og virkjanaframkvæmdir, sameiningarmál sveitarfélaga og um þá staðreynd að það væru níu orkusalar á Íslandi með öll sín mismunandi verð.

Magnús Hlynur Hreiðarsson
Í dag eru íbúar Skeiða og Gnúpverjahrepps 630 en þeim mun fjölga mikið næstu árin því það á að byggja 500 nýjar íbúðir í byggðakjarnanum í Árnesi vegna mikilla umsvifa í sveitarfélaginu.
„Heyrðu, við erum á lokametrunum að klára skipulag. Í Árnesi í dag eru tæplega 30 íbúðir og við erum að skipuleggja hátt í 500 íbúðir, lóðir fyrir 500 íbúðir. Það er gríðarlega uppbygging farin af stað, bæði í þessum virkjunarmálum og svo hjá Bláa lóninu upp í Þjórsárdal og við erum bara að undirbúa það að það verði mikil fjölgun í sveitarfélaginu á næstu árum. Við ætlum að standa okkar plikt í því að hafa nægar lóðir og að það verði byggt mikið af íbúðarhúsnæði,“ segir Haraldur Þór.

Magnús Hlynur Hreiðarsson
Og Haraldur Þór segir að nú þegar sé sveitarfélagið byrjað að framkvæma og byggja í Árnesi til að hafa alla innviði klára fyrir það sem framundan er.
„Við erum að byggja alla innviðina. Við erum að byggja mjög stórt íþróttahús núna og búin að vera í mikilli stefnumótun, ný skólastefna og heildstætt starf. Við ætlum að vera tilbúin þegar íbúarnir koma til þess að starfa í öllum þessum verkefnum, sem verða byggð upp á vegum ferðaþjónustu þannig að þetta er mjög spennandi,“ segir Haraldur Þór.
Heimild: Visir.is