Framkvæmdir vegna Fossvogsbrúar, sem er fyrsta stóra verkefnið í tengslum við Borgarlínuna, hófust formlega í dag.
Nýr samgönguráðherra, Eyjólfur Ármannsson, tók fyrstu skóflustunguna að framkvæmdinni, ásamt Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, Davíð Þorlákssyni, framkvæmdastjóra Betri samgangna, Einari Þorsteinssyni, borgarstjóra Reykjavíkur og Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, fyrr í dag að viðstöddu fjölmenni.
Umræddar framkvæmdir snúast um vinnu við landfyllingar og sjóvarnir vegna fyrirhugaðar byggingar Fossvogsbrúar. Verksamningur milli Vegagerðarinnar og verkakafyrirtækisins Gröfu og grjóts var undirritaður í síðustu viku í kjölfar útboðs í nóvember 2024.
Bergþóra sagði þetta vera stóran dag og að langur aðdragandi væri að þessari framkvæmd. „Fyrstu hugmyndir að brú yfir Fossvog komu fram árið 2013 og margt hefur gerst frá þeim tíma. Þetta er fyrsta framkvæmdin í Borgarlínu og markar vegferð sem við erum búin að undirbúa í langan tíma,“ sagði Bergþóra.
Davíð þakkaði Vegagerðinni, Reykjavíkurborg og Kópavogi kærlega fyrir samstarfið, sem væri rétt að byrja.
Eyjólfur var ánægður með að sjá framkvæmdirnar hefjast. „Það er draumur allra samgönguráðherra að vera kominn á verkstað að hefja framkvæmdir með skóflu í hönd og vonum bara að framkvæmdin muni ganga fljótt fyrir sig,“ sagði hann.
Einar sagði viðeigandi að fyrsta framkvæmdin vegna Borgarlínuverkefnisins væri brú. „Hún er ákveðið tákn um þessa brú sem hefur verið byggð á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um sameiginlega samgöngustefnu, áherslu á allt það sem fylgir Samgöngusáttmálanum, og það er gríðarlega mikilvæg brú, og síðast en ekki síst milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins.“
Ásdís sagði þetta vera stóran áfanga. „Fossvogsbrúin hefur verið til umræðu en þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál, ekki bara fyrir Kópavogsbúa heldur höfuðborgarbúa alla. Hér gerum við ráð fyrir að 10 þúsund manns muni daglega hjól, ganga eða fara með Borgarlínunni um brúnna. Frábært að við séum komin á þennan stað,“ sagði hún.
Áætluð verklok eru 1. nóvember 2026 fyrir þennan hluta verksins en gert er ráð fyrir að Fossvogsbrú verði tilbúin um mitt ár 2028.
Heimild: Vegagerdin.is