Home Fréttir Í fréttum Um þúsund bíða eftir VR-íbúðum

Um þúsund bíða eftir VR-íbúðum

35
0
Halla Gunnarsdóttir, Nadia Tamimi og Ragnar Þór Ingólfsson við afhendingu fyrstu íbúðar húsnæðisfélags VR. RÚV – Anna Lilja Þórisdóttir

Um eitt þúsund bíða eftir íbúð hjá nýju húsnæðisfélagi VR. Fyrstu íbúðirnar voru afhentar í gær, kona sem fékk eina þeirra segir mikinn létti að vera komin í öruggt húsnæði.

<>

Það er mikill léttir að komast í öruggt húsnæði segir kona sem senn flytur í íbúð húsnæðisfélags VR. Formaður félagsins segir muninn á leigunni þar og á frjálsum markaði nema allt að 200 þúsund króna launahækkun.

Fyrstu íbúðir húsnæðisfélags VR, sem heitir Blær, voru afhentar í gær. Þær eru í Úlfarsárdal, í þessum fyrsta áfanga eru þær alls 36 og verða afhentar í þessum og næsta mánuði. Halla Gunnarsdóttir, formaður VR segir þetta hafa verið brýnt verkefni: „Það er húsnæðiskrísa á Íslandi og allir verða að leggjast á árarnar,“ segir Halla.

Er það hlutverk verkalýðsfélaga að sjá til þess? „Það er hlutverk verkalýðsfélaga, á meðan enginn annar gerir það. Fólk sem er á leigumarkaði á oft á hættu að missa húsnæði sitt. Ég hef starfað með konu sem hefur búið á Íslandi í fimm ár, aldrei haldið jól á sama stað. Ekki af því að hún vill ekki halda jól á sama stað heldur vegna þess að hún missir húsnæði sitt.“

RÚV / Anna Lilja Þórisdóttir

Mikil eftirspurn
Halla segir mikla eftirspurn vera eftir íbúðunum og biðlistinn sé langur. „Þetta er nær þúsundinu,“ svarar hún spurð um hversu margir séu á listanum

Að sögn Höllu koma 30% af kostnaði við framkvæmdirnar af eigin fé VR, afgangurinn kemur einnig frá félaginu, en mun í framtíðinni fást að láni frá lánastofnun. Hún segir félagið óhagnaðardrifið og að leiga verði undir markaðsverði. „Það getur jafngilt launahækkun upp á hátt í 200.000 krónur,“ segir Halla.

Eruð þið að borga með þessu? „Við erum ekki að borga með þessu, nei.“

Er sanngjarnt að nota fé félagsins á þennan hátt, sem nýtist aðeins hluta félagsmanna? „VR er ekki að tapa á þessum framkvæmdum. Við lánum fé á ákveðnum vöxtum sem skila okkur því sem við þurfum.“

RÚV/Skjáskot / Viðar Hákon Söruson

Mikill léttir að komast í öruggt húsnæði
Nadia Tamimi fékk fyrstu íbúðina afhenta, 120 fermetra íbúð sem hún sagði henta sér einkar vel.

„Ég er að koma af almennum leigumarkaði,“ sagði Nadia. „Ég er búin að vera þar í fjögur ár, einstæð með 2 unglinga. Það hefur verið erfið byrði að vera í hækkun árlega og mánaðarlega. Það er mikill léttir að komast í öruggt húsnæði.“

Er mikill munur á leiguverðinu? „Það er mikill munur, yfir 100 þúsund krónur á mánuði. Það munar svo sannarlega.“

Hvenær flytur þú svo inn? „Það verður málað um helgina, vonandi hægt að gista á sunnudag. Það eru draumórar, en sem allra fyrst.“

Heimild: Ruv.is