Borgarráð hefur samþykkt deiliskipulagstillögu sem heimilar að núverandi húsi á lóðinni við Njarðargötu 61 í miðborginni verði breytt í þriggja hæða fjölbýlishúss og byggingarmagn á lóðinni þar með aukið.
Sitt hvoru megin við lóðina eru Lokastígur og Skólavörðustígur en íbúar í næstu húsum við lóðina hafa gert athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir og andmælt þeim ekki síst með vísan til þess að nýja húsið verði það miklu hærra en þeirra hús að það muni skerða birtu og útsýni.
Óttast því íbúarnir bersýnilega að verða fyrir sams konar áhrifum og íbúar í fjölbýlishúsi við Árskóga, í Breiðholti, sem urðu fyrir því að vöruhús var reist þétt up við húsið.
Málið í miðborginni á sér nokkurn aðdraganda eins og DV hefur fjallað um á undanförnum misserum. Grenndarkynning á síðasta ári vegna framkvæmdanna misfórst og íbúar í nágrenninu komu því af fjöllum og fréttu flestir af áformunum þegar frestur til að gera athugasemdir var liðinn.
Heimild: Dv.is