Fyrrverandi formaður FH segist að hvorki hann né fyrirtæki hans hafi hagnast á byggingu knatthúss fyrir félagið. Skýrsla Deloitte um byggingu hússins og bókhald aðalstjórnar félagsins vakti mikla athygli og umræður.
„Ég er og hef alla tíð verið FH-ingur, ber hag félagsins ávallt fyrir brjósti og því svíður mig mjög að hafa þurft að sitja undir ásökunum í fjölmiðlum hvað mál þetta varðar.“
Þetta segir Jón Rúnar Halldórsson, fyrrverandi formaður FH, um þá umræðu sem skapaðist eftir að Deloitte vann skýrslu um byggingar- og rekstrarkostnað knatthússins Skessunnar. Niðurstaða hennar var að ósamræmis gætti og að sumt væri óljóst.
Eitt af því sem var rætt var aðkoma bræðranna Jóns Rúnars og Viðars Halldórssona sem hafa lengi verið í forystu FH. Best-hús, félag Jóns Rúnars, kom að byggingunni og fékk greitt frá félaginu.
Jón Rúnar segir í yfirlýsingu sem barst fréttastofu undir kvöld í gær að hann og fyrirtækið hafi í raun verið sökuð ranglega um að hafa með ólögmætum eða ósiðlegum hætti makað krókinn á viðskiptum við FH vegna byggingar Skessunnar.
Hann segir að þetta sé rangt og að fjölmiðlar hafi ekki gefið því gaum að Deloitte hafi ekki staðfest upplýsingar sem byggt væri á í skýrslunni.
„Rétt er að taka fram að Deloitte ehf. hafði aldrei samband við mig til að fá gögn eða skýringar á greiðslum FH til Best-húsa ehf. Hefðu starfsmenn Deloitte ehf. aflað gagna frá Best-húsum ehf. hefðu þeir séð og getað staðreynt að hvorki ég persónulega né Best-hús ehf. höfum haft nokkurn hagnað af byggingu Skessunnar.“
Jón Rúnar segir að allir fjármunir sem FH greiddi Best-húsum hafi runnið til framleiðanda og seljanda burðarvirkis og ytra byrðis Skessunnar. Hann segir að öllum hlutaðeigandi, stjórn FH, forráðamönnum Hafnarfjarðarbæjar og Deloitte hafi verið gerð grein fyrir því hvernig greiðslum var háttað.
Hann segir að í umræðunni hafi verið blandað saman greiðslum vegna knatthússins og endurgreiðslu FH á vaxta- og verðbótalausum lánum sem fyrirtækið veitti félaginu. Þau hafi ekki tengst byggingunni með nokkrum hætti.
Heimild: Ruv.is