Það er ekki hægt að halda okkur hanga á bláþræði endalaust, segir fyrirtækjaeigandi í Grindavík. Tjón vegna náttúruhamfaranna er rúmlega sjö milljarðar að mati Náttúruhamfaratrygginga.
65 hús í Grindavík eru ónýt að mati Náttúruhamfaratrygginga. Af þeim eru hátt í þrjátíu iðnaðarhúsnæði. Eitt þeirra á Halla María sem á og rekur staðinn Hjá Höllu.
„Það skemmdist allt tíunda nóvember, sprakk allt saman og fór að rifna frá viðbyggingunni. Það er alltaf að skemmast meira og meira. Það er að hrynja þakið. Ekki traustvekjandi,“ segir Halla María Svansdóttir, eigandi Hjá Höllu.

– Víðir Hólm
Húsið stendur í Staðarsundi í iðnaðarhverfi Grindavíkur sem er illa farið. Húsið eru sjö iðnaðarbil.
Metið heildartjón í Grindavík nemur nú um sjö komma tveimur milljörðum samkvæmt Náttúruhamfaratryggingu. Það er tjón á húseignum, lausafé og veitumannvirki. Sviðstjóri þar segir í skriflegu svari að heildartjón geti orðið talsvert hærra. Ekki sé búið að ljúka uppgjöri hjá öllum.
Hvað segir Náttúruhamfaratrygging um þessa húsalengju? „Allavega partur af henni er ónýtur. Þannig að okkar bil og næstu tvö næstu bil eru ónýt. En restin er svo heil, en samt dæmd að einhverju leyti skemmd.“
Stofnunin metur og greiðir aðeins fyrir tjón á húsinu sjálfu, ekki lóðinni. Tjón vegna sprungna á lóðum fæst ekki bætt. Stór sprunga er fyrir framan húsið og undir því.

– Víðir Hólm
Hluti eigendanna ætlar ekki að una niðurstöðu Náttúruhamfaratrygginga og hefur óskað eftir endurmati.
„Það eru fjórir eigendur sem eru með heil bil og eru ekki sáttir við það sem ég skil. Gatan er ónýt, sumir komast ekki inn í húsnæðið sitt, þó að það sé heilt. Þannig að það þarf að finna lausn á þessu,“ segir Halla María.
Þetta er í grunninn sama húsið með sameign þó að því sé skipt upp í nokkur bil. Ef allir eigendurnir eru ekki sáttir við niðurstöðuna getur Halla María ekki fengið sinn hlut greiddan.

– Víðir Hólm
„Við höfum verið að greiða um sjö milljónir á síðasta ári í þetta húsnæði sem er augljóslega ekki hægt að nota og verður ekki hægt að nota. Það er ekki rafmagn hérna og ekki hiti eins og þið finnið,“ segir hún.

– Víðir Hólm
„Það er ekki ennþá búið að vinna hér í götunni eða hvað verður gert. Við vitum ekki hvað verður gert við þetta svæði, höfum ekki fengið svör við því. ÞAnnig að við stöndum bara frammi fyrir því að halda áfram að bíða.“ Á meðan þau bíða eru þau með atvinnuhúsnæði í Sandgerði til leigu.
Rekstrarstuðningur til grindvískra fyrirtækja var framlengdur út mars. „Það þarf að klára viss mál, að láta þau ekki hanga á bláþræði endalaust. Það er miklu meira vit í því að koma fólki af ríkinu. Ef það heldur áfram að vera með vinnu fyrir sjálfan sig og aðra, þá eru miklu meiri líkur á að við komum til baka.“
Grindavíkurnefndin vinnur að tillögum fyrir nýja ríkisstjórn, meðal annars um hvað atvinnurekendur í bænum þurfi.
„Það er ómögulegt að kaupa út heilt bæjarfélag og skilja nokkra einstaklinga eftir, það er ekki hægt. Þú setur ekki fólk í þá stöðu að það séu tíu aðilar sem eiga að byggja upp eitthvað samfélag.“
Heimild: Ruv.is