Home Fréttir Í fréttum Gera stjórnsýsluúttekt á byggingu vöruhússins í Breiðholti

Gera stjórnsýsluúttekt á byggingu vöruhússins í Breiðholti

13
0
Í dag var fundur í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar var rætt um byggingu vöruskemmu í Álfabakka sem skyggir á útsýni íbúa við Árskóga. – Ragnar Visage.

Fulltrúar í borgarstjórn fjölluðu í dag um byggingu vöruskemmu sem byrgir íbúum við Árskóga í Breiðholti sýn. Borgarfulltrúar samþykktu að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á framkvæmdinni og borgarstjóri vill læra af mistökunum.

<>

Á fundi borgarstjórnar í dag var samþykkt að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á byggingu vöruskemmu við Álfabakka 2a, í nálægð við íbúðarhúsnæði Búseta við Árskóga.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins lögðu á fundinum fram tillögur um að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á málinu. Fulltrúar allra flokka, sem tóku til máls á fundinum, voru sammála um að skoða þyrfti framkvæmdina.

Tillaga Sjálfstæðisflokks, með breytingartillögu, var samþykkt.

Borgarstjóri lofaði íbúum við Árskóga, í desember, að gerðar verði breytingar; vöruskemman lækkuð eða umhverfið skreytt með gróðri.

Borgin hefur sætt harðri gagnrýni vegna málsins.

Gera stjórnsýsluúttekt á byggingunni
Saga málsins var reifuð á fundinum. Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pírötum, sagði málið mjög vont en mikilvægt væri fyrir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar að nýta tækifærið til að laga verkferla, breyta þeim og bæta.

Hún gagnrýndi aðkomu Búseta og sagði þá hafa vitað af byggingu vöruskemmunnar. Hún sagðist samþykk stjórnsýsluúttekt á málinu og vildi auk þess fá endurskoðun á vinnu skipulagsmála innan borgarinnar.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Flokki fólksins, og Líf Magneudóttir, Vinstri grænum, sögðust báðar vilja að vöruskemman yrði rifin. Líf sagðist telja eðlilegt að byggingin yrði færð annað.

Kolbrún sagði mjög athugunarvert að framkvæmdir við bygginguna héldu áfram á meðan unnið væri að lausn málsins. Íbúar við Árskóga gætu ekki búið við núverandi aðstæður.

Hún sagði meirihlutann í borginni og skipulagsyfirvöld bera alla ábyrgð.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, sagði mistök hafa verið gerð við byggingu vöruskemmunnar.
Ragnar Visage.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, sagði mistök hafa verið gerð sem þyrfti að læra af. Hann sagði grafalvarlegt að íbúar við Árskóga hefðu fengið villandi svör við athugasemdum sínum um vöruskemmuna og sagðist hafa þegar óskað eftir því að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan leitað væri lausna.

Hann teldi óraunhæft og flókið að byggingin yrði rifin en gerði ráð fyrir að tillögur að breytingu á skemmunni lægju fyrir í lok mánaðarins.

Dóra Björt svaraði því til að samtöl um lausnir væru í gangi með byggingaraðilum. Hún sagði nauðsynlegt að byggja aftur upp traust á ferlum innan borgarinnar og að allt yrði gert til að laga skemmuna. Hún sagðist ekki neita ábyrgð.

Borgarfulltrúar voru sammála um að skoða þyrfti verkferla.
Ragnar Visage.

Helgi Áss Grétarsson, Sjálfstæðisflokknum, gagnrýndi Dóru Björt fyrir að koma sér undan ábyrgð með því að vísa til ábyrgðar Búseta og byggingaraðila. Helgi sagði Reykjavíkurborg bera ábyrgð á byggingu skemmunnar, frá öllum hliðum.

Hann sagði málið snúast um að Reykjavíkurborg hefði selt lóðina án þess að setja byggingu á lóðinni nægar skorður.

Samflokkskona Helga, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, sagði bygginguna eitt ótrúlegasta klúður sem sést hefði í skipulagsmálum borgarinnar.

Alexandra Briem, Pírötum, sagðist ekki muna eftir athugasemdum um bygginguna, hvorki frá minnihluta né meirihluta. Hún sagði að við lausn málsins yrði að hafa í huga að ekki mætti setja fordæmi fyrir því að aldrei mætti skerða útsýni. Slíkt gæti reynst erfitt í stórborg.

Andrea Helgadóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, sagðist vilja að framkvæmdir við byggingu vöruskemmunnar yrðu stöðvaðar. Auk þess þyrfti að fara vandlega ofan í skipulag borgarinnar þannig að byggingar skertu ekki lífsgæði íbúa.

Búseti skoðar að leggja fram stjórnsýslukæru
Búseti sér ekki annan kost en að leggja fram stjórnsýslukæru vegna synjunar byggingafulltrúa í Reykjavík um að stöðva frekari framkvæmdir við Álfabakka tvö. Þetta sagði Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, í Morgunblaðinu í dag.

Forsvarsmenn Búseta telja að byggingarmagnið sé ekki í samræmi við fyrri áform og auglýsingar á breytingu hafi ekki verið nógu áberandi.

Þess vegna telji þeir deiliskipulagið ógilt.

Bjarni segir að Búseti muni á næstu dögum nýta þau úrræði sem lögmenn félagsins telji við hæfi og að ef ekki verði fallist á kæruna sé einsýnt að Búseti leiti réttar síns fyrir dómstólum.

Heimild: Ruv.is