Vegagerðin áætlar að ljúka verkhönnun nýs Suðurfjarðavegar í ár. Rannsóknir hafa staðið vegna vegagerðar í botni Reyðarfjarðar. Bæjarráð Fjarðabyggðar þrýstir áfram á um að verkið hefjist sem fyrst.
Bæjarráð Fjarðabyggðar ítrekaði á síðasta fundi sínum fyrir jól að framkvæmdum við nýjan Suðurfjarðaveg verði flýtt eins og kostur er. Fyrsti áfangi þeirra yrði færsla vegarins í botni Reyðarfjarðar með nýrri brú yfir Sléttuá. Ráðið leggur áherslu á að verkhönnun hefjist strax í ár og framkvæmdir framhaldinu.
Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar segir að gert sé ráð fyrir að verkhönnun og gerð útboðsgagna ljúki áður en árið 2025 er liðið. Markmiðið er að byrja framkvæmdir árið 2026 en samkvæmt drögum að samgönguáætlun er þá tryggt fjármagn í verkið.
Það er þó háð staðfestingu Alþingis og forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar, en drögin að samgönguáætlun eru enn ósamþykkt. Síðasta samþykkta áætlun er fallin úr gildi en í haust var þó tryggt fjármagn til samgönguverkefna á þessu ári.
Út úr lista yfir útgefið efni á vef Náttúrustofu Austurlands má lesa að á nýliðnu ári hafi verið unnið að náttúrufarsrannsóknum á svæðinu, á lífríki fugla og fjöru, gróðri og fornleifaskráningu. Í svari Vegagerðarinnar kemur einnig fram að kannað hafi verið hvort framkvæmd þurfi í umhverfismat. Verið er að ljúka við gerð kynningarskýrslu og síðan þarf Skipulagsstofnun að svara.
Heimild: Austurfrett.is