Home Fréttir Í fréttum Lóðum úthlutað en framkvæmdir hefjast ekki

Lóðum úthlutað en framkvæmdir hefjast ekki

80
0
Mynd: Anton Brink RÚV

Mikið vantar upp á að framkvæmdir séu hafnar á lóðum sem úthlutað hefur verið til íbúðauppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Sérfræðingur segir tafir á úthlutun, að vanti að gera lóðir byggingarhæfar eða að byggingaraðilar sitji á þeim.

<>

Mikið vantar upp á að framkvæmdir séu hafnar á lóðum sem úthlutað hefur verið til íbúðauppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Sérfræðingur á húsnæðissviði HMS segir tafir á úthlutun, að vanti að gera lóðir byggingarhæfar eða að byggingaraðilar sitji á þeim.

Vantar 2.900 nýjar íbúðir á ári, en 2.100 byggðar að meðaltali
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ásamt Samtökum iðnaðarins og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu efndu í dag til fundar um stöðu íbúðauppbyggingar. Þar kom fram í máli sérfræðings á húsnæðissviði HMS að þörf sé fyrir 2900 nýjar íbúðir á ári næsta áratuginn, en síðastliðin fimm ár hefur uppbyggingin verið 2100 íbúðir á ári að meðaltali. Lóðaskorti er oft borið við, en sú skýring er kannski full einföld. Jón Örn Gunnarsson sérfræðingur á húsnæðissviði HMS segir að svo virðist sem nóg sé af lóðum.

Virðist ekki vanta lóðir
„Sveitarfélögin, þau áætla í húsnæðisáætlunum sínum úthlutunaráætlun lóða og þær eru alla vega nægar, virðist vera, en það þarf að tryggja það að þeim sé úthlutað og þær séu byggingarhæfar á réttum tíma.“

Skortir upp á það?

„Já, það virðist skorta svolítið upp á það, við höfum séð það í eftirfylgni okkar á lóðaúthlutunum sveitarfélaganna.“

Það virðast því einhverjar hindranir vera í veginum. Hér má sjá upplýsingar um áætlaða úthlutun, annars vegar árið 2022 og hins vegar 2023 og hvernig staðan er núna, í fyrra dæminu eru framkvæmdir aðeins hafnar á 65% lóðanna og 42% í því síðara.

„Og það eru þá annað hvort tafir á úthlutunum eða tafir á að gera lóðirnar byggingarhæfar eða að einhverju leyti að byggingaraðilar eru að sitja á lóðunum líka.“

Úthlutanir standast ekki
Jón Örn segir að skýringar á því að séu ekki gerðar byggingarhæfar geta verið ýmsar eins og innviðauppbygging, gatnagerð og fleira eða að mannvirki séu í notkun á lóðunum. Ástandið er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum.

„Já, Hafnarfjörður hefur byggt svolítið mikið á síðustu 2-3 árum í nýja hverfinu sínu. Þar hefur það verið mjög gott og úthlutanir staðist nokkuð áætlun, en það er kannski meira í Kópavogi og á Reykjavíkursvæðinu þar sem úthlutanir standast ekki alveg úthlutunaráætlun sveitarfélaganna.“

Heimild: Ruv.is