Home Fréttir Í fréttum Iðnaðarmenn að drukkna í verkefnum

Iðnaðarmenn að drukkna í verkefnum

222
0
Reykjanesbær

Nóg að gera og víða vantar fólk til vinnu
Í tengslum við gríðarlegar framkvæmdir um öll Suðurnesin þá er óhjákvæmilega nóg um að vera hjá iðnaðarmönnum á svæðinu. Verkefnastaðan er góð og er útlit fyrir að auk stóru verkefnana í Helguvík, á Asbrú, í Flugstöðinni og við Bláa Lónið, sé nóg að gera í einkaframkvæmdum. Verktakafyrirtækið Húsanes ætlar t.a.m. að reisa 100 íbúðir bara í Reykjanesbæ á næstu fjórum árum.

<>

Mannahallæri í málningunni
Trausti Már Hafsteinsson málari hefur í nógu að snúast um þessar mundir en hann rekur fyrirtækið Kef-málun. Hann segir það vissulega vera ánægjulegt að nóg sé að gera, en þó sé erfitt að fá fólk til vinnu. „Það getur verið erfitt að fá vana menn í málninguna,“ segir Trausti. Að hans sögn voru ansi margir málarar starfandi á svæðinu síðast þegar uppsveifla var í samfélaginu. Eftir að lægðin kom í efnahagslífið þá drógu margir saman seglin og því er komin þörf á endurnýjun í greinina. Trausti telur að miðað við það magn verkefna sem er framundan þá séu varla nægilega margir málarar á svæðinu til þess að anna þeim. „Við erum ekki mörg málningafyrirtæki hérna á Suðurnesjum. Menn sem ég hef talað við segja það sama, að það sé bara mannahallæri.“

Kollegar hans í málningunni hafa einnig nóg að gera og menn glíma jafnvel við það lúxusvandamál að þurfa að neita verkefnum. „Það er nóg að gera hjá öllum og gott betur. Það er orðið fínt ástand þegar menn geta leyft sér að neita verkefnum,“ bætir Trausti við. Hann segist finna fyrir því að einstaklingar séu að framkvæma töluvert. Fasteignamarkaðurinn er á mikilli hreyfingu og þegar fólk kaupir ný hús þá þarf oft að fríska upp á fasteignina. Trausti segir annasamt sumar framundan enda hafi sumarið í fyrra verið slæmt hvað veður varðar og því hafi einhver verk tafist hjá fólki.

Fólk virðist eiga fyrir hlutunum
Staðan hjá rafvirkjum er virkilega góð þessi misserin. Guðmundur Ingólfsson rekur nú rúmlega 50 ára gamalt fyrirtæki, Rafverkstæði IB, sem faðir hans heitinn stofnaði á sínum tíma. Guðmundur segir stöðuna vera mjög góða. Allir hafi nóg að gera og að eftirspurn eftir iðnaðarmönnum sé mikil. „Maður er búinn að finna þetta jafnt og þétt aukast alveg frá áramótum í fyrra til dagsins í dag,“ segir Guðmundur sem sjálfur hefur verkefni fram að páskum á næsta ári. Undanfarna mánuði hefur hann því aukið talsvert við starfsfólk hjá sér til þess að mæta öllum þessum verkefnum. Hann man vel eftir góðærinu á sínum tíma en segir fólk öðruvísi þenkjandi í dag. „Fólk virðist eiga fyrir hlutunum, það hefur jafnvel safnað fyrir þeim,“ Guðmundur segir að mikið sé að gera í rafmagninu þegar kemur að fyrirtækjum á svæðinu. Talvert sé af framkvæmdum í kringum ferðamannaiðnaðinn, þá sérstaklega mikið í kringum bílaleigur og slíkt.

Húsanes ætlar að byggja 100 íbúðir í Reykjanesbæ
Halldór Ragnarsson, framkvæmdastjóri Húsaness, er ásamt góðum aðilum að leggja lokahönd á 15 íbúðir í Bjarkadal í Innri-Njarðvík. Það er ekki langt síðan að það hús var varasamt leiksvæði fyrir börn sem bjuggu í nágrenninu.

Verkefnastaðan er mjög góð hjá fyrirtækinu um þessar mundir. Áformað er að fyrirtækið byggi 100 íbúðir í Reykjanesbæ á næstu fjórum árum. „Þetta hefur alveg gjörbreyst bara á einu og hálfu ári. Þegar það eru útboð þá er það að fara á kostnaðaráætlun eða jafnvel meira. Maður þekkti það bara ekki áður fyrr. Það er mikið líf í þessu,“ segir Halldór. Þessa stundina er verið að ljúka við 15 íbúðir í Innri-Njarðvík eins og áður segir, en þar nærri verður hafist handa við að byggja tíu íbúðir til viðbótar innan skamms. „Við ætlum svo að byggja 68 íbúðir við Framnesveg þar sem gamli Jökull var áður,“ segir Halldór. Um er að ræða fjögur hús sem verða á fjórum og fimm hæðum með bílakjallara. Þar er gert ráð fyrir því að útsýnið fái að njóta sín sem best.

Íbúðirnar seldust á hálfum mánuði

Húsin sem unnið er í í Innri-Njarðvík voru búin að standa auð frá hruni en Húsanes keypti þau síðasta haust. Íbúðirnar voru fokheldar þá en eru nú að verða tilbúnar. Þegar er búið að selja allar íbúðir og það á örskömmum tíma. „Þær fóru bara á hálfum mánuði,“ segir Halldór og bætir við. „Ég hef nú ekki lent í þessu áður en rúmlega helmingur af þeim kaupendum er utan af landi eða frá höfuðborgarsvæðinu. Ég man ekki til þess að svona stórt hlutfall utanaðkomandi hafi komið í einu þegar maður hefur selt nokkrar íbúðir.“ Eftir hrun hefur verið hark í þessum bransa. Húsanes hefur verið í hálfgerðri útlegð en nú er nóg að gera á heimaslóðum. „Síðan 2012 höfum við eiginlega bara verið í útlegð. Verið að vinna í Breiðholti, Hafnarfirði og Húsafelli, bara þar sem við finnum okkur vinnu. Hér var svo lemstrað atvinnulífið en nú hefur allt snúist við um 360° gráður. Atvinnuástandið hérna er þannig að hér sárvantar fólk í vinnu. Það eru ánægjuleg tíðindi.“

Á annað hundrað íbúða úthlutað á svæðinu í ár og í fyrra
Víkurfréttir fengu í hendurnar tölur yfir lóðir fyrir íbúðahúsnæði sem hefur verið úthlutað í fyrra og í ár á Suðurnesjum.

Í Grindavík var 14 lóðum úthlutað árið 2015 – fjórum lóðum árið 2016.
Árið 2016 var fjögurra íbúða raðhúsi úthlutað í Sandgerði, eða einni lóð. Ekkert var úthlutað í fyrra. Samkvæmt Jóni Ben Einarssyni, sviðsstjóra umhverfis-, skipulags- og byggingarmála í Garði og Sandgerði þá stóð mikið af húsnæði hins vegar autt í sveitarfélaginu líkt og í Garði og einnig var í einhverjum tilfellum um að ræða hús sem voru í byggingu þar sem framkvæmdir höfðu legið niðri undanfarin ár. Mikið hefur selst af eignum sl. ár og talsvert verið að klára framkvæmdir við eignir sem voru komnar í byggingu við hrunið.

Engum lóðum var úthlutað í Garði í ár og í fyrra. Mikið af húsnæði stóð hins vegar autt í sveitarfélaginu og einnig var í einhverjum tilfellum um að ræða hús sem voru í byggingu en framkvæmdir höfðu legið niðri undanfarin ár. Þessar eignir hafa mikið verið að seljast og nú er verið að leggja lokahönd á tæplega 20 eignir sem hafa staðið hálfkláraðar undanfarin ár.
Í Vogum var engum lóðum úthlutað bæði árin.

Í Reykjanesbæ var alls 99 lóðum úthlutað í ár og í fyrra:

Laufdalur 17-23
7 íbúðir

Leirdalur 29-37
5 íbúðir

Lerkidalur 02-48
23 íbúðir

Vallarás 16
1 íbúð

Víðidalur 34-64
15 íbúðir

Dalsbraut 02
16 íbúðir

Dalsbraut 04
16 íbúðir

Dalsbraut 06
16 íbúðir

Heimild: Vf.is