Home Fréttir Í fréttum Al­var­legt að horfa fram­hjá birtu­leysi við þéttingu byggðar

Al­var­legt að horfa fram­hjá birtu­leysi við þéttingu byggðar

34
0
Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði. Skjáskot/Stöð 2

Íbúi í Hlíðarendahverfi í Reykjavík hefur áhyggjur af því að fyrirhugað fimm hæða hús í hverfinu verði til þess að aðrar íbúðir verði í skugga allan ársins hring. Umhverfissálfræðingur segir birtuleysi hafa gríðarleg áhrif á fólk.

<>

Í Morgunblaðinu er rætt við íbúa í Smyrilshlíð í Hlíðarendahverfi þar sem fyrirhugað er að reist verði fimm hæða hús, vestan við Smyrilshlíð. Framkvæmdir hefjast í mars eða apríl. Íbúinn segir uppbygginguna ganga þvert á skipulag sem hafði þegar verið kynnt íbúum. Hann hefur áhyggjur af því að uppbyggingin muni hafa gríðarlega slæm áhrif á birtuskilyrði í nálægum íbúðum, jafnvel að ýmsir verði án sólarljóss allan ársins hring.

Páll Líndal umhverfissálfræðingur segir að þegar verið er að þétta byggð líkt og í Hlíðarendahverfi, sé allt of oft litið framhjá þáttum eins og ljósvist.

„Þegar við búum norður í höfum, þar sem er nú þegar frá náttúrunnar hendi mikill skortur á birtu stóran hluta ársins, þá er þetta einfaldlega ekki það sem þarf. Við þurfum að taka mið af því hvar við erum staðsett á jarðarkringlunni. Þetta er mjög alvarlegt mál að líta fram hjá þessu,“ segir Páll.

Að vera án birtu getur haft mikil og slæm áhrif á einstaklinga.

„Þetta hefur áhrif á dægursveifluna af því við þurfum bæði ljós og myrkur, þetta hefur áhrif á afköst okkar, þetta hefur áhrif á svefn okkar, þetta getur haft áhrif á minni okkar og getu til lærdóms, þetta hefur áhrif á skap okkar. Þannig þetta eru mjög mörg fjölþætt áhrif sem skortur á birtu hefur í för með sér,“ segir Páll. „Svona uppbygging, sem bíður upp á það að fólk búi í íbúðum þar sem er skuggi allt árið, þetta er einfaldlega heilsuspillandi umhverfi,“ segir Páll.

Heimild: Visir.is