Home Fréttir Í fréttum Neyðar­á­stand í Nuuk vegna straumleysis

Neyðar­á­stand í Nuuk vegna straumleysis

71
0
Frá Nuuk, höfuðstað Grænlands. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson

Gripið hefur verið til neyðarviðbragða í Nuuk, höfuðstað Grænlands, eftir að rafmagn fór af bænum í gærmorgun. Rafmagnsleysið varð til þess að ekki var hægt að kynda hús í tólf stiga frosti og opnuðu bæjaryfirvöld tvö íþróttahús, sem höfðu varaafl, svo íbúar þessa tuttugu þúsund manna bæjar gætu ornað sér í kuldanum.

<>

Ekkert gekk að ræsa dísilknúnar varaaflsstöðvar og var miklu frosti kennt um. Það var loks um kvöldmatarleytið í gærkvöldi sem það tókst og takmarkað rafmagn fór að koma á einstaka hluta bæjarins. Seint í gærkvöldi var rafmagn komið á í flestum bæjarhlutum. Víðtæk rafmagnsskömmtun er þó í gildi og óvíst hvenær mál lagast.

Svo takmarkað er varaafl að slökkva þurfti á bæði 4G og 5G-sendum. Þá féllu niður útvarpssendingar KNR, ríkisútvarps Grænlendinga.

Nýleg háhýsi í einu úthverfa Nuuk.
Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Neyðarstjórn almannavarna í Nuuk var kvödd saman vegna stöðunnar. Biðlaði hún til íbúa að fara sparlega með rafmagn og nota engin orkufrek rafmagnstæki, eins og eldavélar, þvottavélar og uppþvottavélar, samkvæmt frétt KNR. Þó var tekið fram að óþarfi væri að slökkva á jólaljósum enda væru þau flest með sparneytnum led-perum. Þá voru húseigendur beðnir um að huga að frostskemmdum í vatnsleiðslum, að því er fram kemur í frétt Sermitsiaq.

Straumrofið er rakið til bilunar í sextíu kílómetra langri háspennulínu milli Nuuk og stærstu virkjunar Grænlands, við Buksefjord. Aðstæður eru þannig að ekki verður hægt að kanna hvar bilunin er fyrr en birtir í dag. Háspennulínan er meðal annars strengd yfir Ameralik-fjörðinn í einu 5,4 kílómetra löngu hafi, sem er það lengsta í heiminum fyrir háspennulínu.

Heimild: Visir.is