Reykjavíkurborg mun ekki hafa frumkvæði að því að fækka akreinum á Hringbraut eða breyta núverandi hringtorgi á mótum Hringbrautar, Eiðsgranda og Ánanausta í T-gatnamót.
Þetta er eitt atriða í samkomulagi Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um samgöngumál í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri undirrituðu samkomulagið 12. desember sl. og hefur það verið samþykkt í borgarráði.
Seltirningar sætti sig ekki við breytingarnar
Árið 2023 bárust af því fréttir að einhverjir fulltrúar meirihlutaflokkanna í Reykjavík teldu að til framtíðar væri æskilegt breyta hringtorginu við JL-húsið í klassísk ljósastýrð T-gatnamót.
Þór bæjarstjóri mótmælti þessum hugmyndum harðlega í fjölmiðlum. Sagði hann að Seltirningar myndu ekki sætta sig við þessar breytingar.
Vegagerðin vegahaldari
Vegagerðin fer með vegahald þjóðvega á svæðinu, þar á meðal á Hringbraut. Vegagerðin hefur staðfest að engar breytingar séu fyrirhugaðar á gatnamótum Hringbrautar né veginum sjálfum.
Heimild: Mbl.is