Mannfjöldi fagnaði opnun tveggja nýrra jarðganga á Borðey í Færeyjum fyrir helgi, Árnafjarðarganga og Hvannasundsganga. Saman nefnast þau Göngin norður um Fjall og eru samtals 4,2 kílómetra löng.
Göngunum er ætlað treysta samgöngur milli Klakksvíkur, næst stærsta bæjar Færeyja, og annarra byggða á Borðey; Árnafjarðar, Norðdepils og Hvannasunds, sem og Viðeyjar og Viðareiðis. Þau leysa af tvenn eldri göng frá árunum 1965 og 1967, sem eru einbreið og barn síns tíma. Þau eru það þröng að stórir flutningabílar geta ekki notað þau, sem takmarkað hefur meðal annars fiskflutninga.
Samgöngu- og sjávarútvegsráðherra Færeyja, Dennis Holm, sem klippti á borðann, lagði áherslu á það í vígsluávarpi sínu að góðar samgöngur innan Færeyja væru jafnréttismál.
„Landsstjórnin vinnur að því markmiði að Færeyjar verði bundnar saman þannig að við getum búið, starfað og ferðast um eyjarnar á jafnréttisgrundvelli,“ sagði Dennis Holm.
„Það leikur enginn vafi á því að gömlu göngin norðan við Fjall hafa verið mikil hindrun í okkar nútímasamfélagi, þar sem góð tengsl milli þorpa, bæja, eyja og einnig landa eru þýðingarmikill þáttur í velferðarríki.
Það er mikilvægt í daglegu lífi okkar að geta á auðveldan, fljótlegan og öruggan hátt ferðast til vinnu, í skóla, á íþrótta- og menningarviðburði, sótt opinbera þjónustu og ekki síst til að heimsækja fjölskyldu og vini,“ sagði samgönguráðherrann ennfremur.
Færeyingar hófu gerð ganganna í febrúar 2021.
Enginn vegtollur fylgir þessum göngum né öðrum göngum í gegnum færeysk fjöll. Gjaldtaka af jarðgöngum þar er eingöngu af neðansjávargöngum. Fern slík eru komin á milli eyja í Færeyjum; Vogagöng, Norðureyjagöng, Austureyjargöng og Sandeyjargöng.
Og Færeyingar virðast ekkert ætla að slaka á í jarðgangagerðinni. Ráðherrann boðaði að næstu göng yrðu til Tjörnuvíkur og stefnt væri á fyrstu sprengingu á næsta ári. Jafnframt væru Suðureyjargöng komin á dagskrá.
Heimild: Visir.is