Tólf tilboð bárust í frágang og innréttingar á nýrri heilsugæslustöð við Hrunamannaveg 3 á Flúðum og aðeins munaði 2% á tveimur lægstu tilboðunum.
Selás byggingar og HR smíði átti lægsta tilboðið í verkið 128,5 milljónir króna en þar á eftir kom Harri Kjartansson með tilboð upp á 131,2 milljónir króna.
Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti á fundi sínum í gær að taka tilboði Selás bygginga og HR smíði, enda uppfylli fyrirtækin öll skilyrði útboðsins.
Tíu önnur tilboð bárust; Tré og straumur buðu 138,6 milljónir króna en um var að ræða frávikstilboð, Þröstur smiður bauð 145,5 milljónir króna í verkið, Norðanmenn 146,6 milljónir, Próbygg 153,5 milljónir, Vörðufell 168,5 milljónir, Tindhagur 170 milljónir, Gæðabygg 170,2 milljónir, Land og verk 175,2 milljónir, Múr og málningarþjónustan og Höfði 192,4 milljónir og Al-bygg 247,7 milljónir króna.
Verkinu á að vera lokið þann 31. júlí næstkomandi, en það felst í frágangi, smíði og uppsetningu innréttinga í óinnréttað húsnæði að Hrunamannavegi 3, lagningu allra lagna, uppsetningu milliveggja, innihurða, kerfislofts og gólfefna ásamt nýjum gluggum og útihurð.
Heimild: Sunnlenska.is