Í dag hófst nýr kafli í sögu Þorlákshafnar þegar fyrsta skóflustungan að nýjum miðbæ á Þorlákshöfn var tekin með viðhöfn. Skóflustunguna tók Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs og einn af drifkröftunum á bak við hinn nýja miðbæ. Verkefnið, sem hefur lengi verið í undirbúningi, mun umbreyta hjarta bæjarins og skapa aðlaðandi og lifandi miðbæ fyrir íbúa og gesti.
Nýr miðbær, sem hefur verið kynntur undir slagorðunum „Þorp verður bær“, er hannaður til að verða miðstöð samfélags og menningar í bænum. Áætlanir gera ráð fyrir fjölbreyttri uppbyggingu sem mun innihalda verslanir, veitingastaði, þjónusturými og opin svæði þar sem íbúar geta komið saman.
Íbúum í Ölfusi, og þá sérstaklega í Þorlákshöfn, hefur fjölgað mjög hratt á seinustu árum og nálgast nú að verða 3000. Ekkert lát er á sóknarhugnum og til marks um það eru núna rúmlega 200 íbúðir í byggingu.
„Þetta er sögulegur dagur fyrir Þorlákshöfn. Á forsendum verðmætasköpunar er nú mögulegt að skapa velferð sem skilar okkur sterkara og betra samfélagi. Með uppbyggingu nýs miðbæjar erum við að fylgja framtíðarsýn sem byggir á samheldni íbúa, sjálfbærri sókn og nýsköpun. Við hlökkum til að sjá þennan miðbæ verða miðpunkt mannlífsins í bænum og vaxandi þjónustu,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, við þetta tilefni.
Mikil áhersla er lögð á að miðbæjarverkefnið verði í samræmi við nýjustu kröfur í umhverfis- og byggingarmálum. Verkefnið er sérstaklega til þess fallið að skapa umgjörð sem hvetur til uppbyggjandi samveru. Til marks um það verður skautasvell á miðbæjartorginu og velbúinn menningarsalu auk verslana, veitingastaða og fl.
Heimild: Sunnlenska.is