Hveragerðisbær er meðal 22 samstarfsaðila Umhverfisstofnunar sem fengu samtals 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.
Hlutur Hveragerðisbæjar er 342.931.314 kr. og felst verkefnið í að byggja nýja skólphreinsistöð og um leið þróa heildstæðar úrgangslausnir og sýna framfarir í meðhöndlun á úrgangi. Einnig mun Hveragerðisbær sýna fram á nýtt eftirlit með seyru og örplasti en það hefur ekki verið gert áður hér á landi. Loks sitja fulltrúar bæjarins í vinnustofum og fundum þar sem þeir miðla upplýsingum um verkefnið og þeim árangri sem vinnst.
Yfirskrift verkefnisins er LIFE ICEWATER og er því ætlað að:
- Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi
- Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum
- Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni
- Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns
Verkefnið hefst þann 1. janúar 2025 og stendur yfir í 72 mánuði. Áætluð verklok eru 31. desember 2030.
Heildarkostnaður við verkefnið sem Umhverfisstofnun sótti um styrk fyrir er 39.587.467 Evrur en styrkurinn er fyrir 60% hlut og hljóðar því upp á 23.752.480 Evrur eða um 3,5 milljarða króna. Hlutur Hveragerðisbæjar í styrknum er upp á 2.332.755 Evrur eða 342.931.314 íslenskra króna.
Með LIFE ICEWATER gefast tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi ýmissa aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land, auk þess að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum.
Styrkurinn fyrir LIFE ICEWATER er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals um 5,8 milljarðar króna. LIFE áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60% eða samtals um 3,5 milljarða sem dreifast á samstarfshópinn og verða verkefnin unnin á árunum 2025-2030.
Verkefninu er skipt upp í 7 vinnupakka en yfirlit yfir aðgerðir hvers vinnupakka má sjá á myndinni hér fyrir neðan:
Auk Umhverfisstofnunar eru 22 samstarfsaðilar í verkefninu: Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orka náttúrunnar, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavík, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis,- orku og loftslagsráðuneyti, Veðurstofa Íslands og Veitur, ásamt þremur óbeinum þátttakendum: Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.
Heimild: Hveragerdi.is