Home Fréttir Í fréttum Fjárfest fyrir fimm hundruð milljónir í Fljótsdalshreppi

Fjárfest fyrir fimm hundruð milljónir í Fljótsdalshreppi

68
0
Langt síðan fjárfest hefur verið jafn duglega og í ár og á næsta ári í Fljótsdalshreppi. Mynd Fljótsdalshreppur

Fjárfestingar Fljótsdalshrepps í ár og næstu fjögur árin munu alls nema rétt tæpum 500 milljónum króna samkvæmt framlagðri og samþykktri fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlunar í kjölfar þess. Sveitarfélagið verður áfram með allra lægstu útsvarsprósentu í landinu, 12,44%, eins og verið hefur um margra ára skeið.

<>

Síðari umræða um fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins til næstu ára fór fram fyrir skömmu en þar var farið yfir fjárhagsstöðu yfirstandandi árs auk áætlana næsta ár og þriggja ára áætlana áranna 2026 til 2028.

Áberandi eru tiltölulega stórar fjárfestingar á árinu sem er að líða og því næsta fyrir eins fámennt sveitarfélag og Fljótsdalshreppur er með sína hundrað íbúa eða svo. Á yfirstandandi ári var stóra fjárfestingin lokaframkvæmdir við nýtt þjónustuhús við Hengifoss en það kostaði sveitarfélagið 167 milljónir króna. Alls hefur sú framkvæmd frá upphafi kostar hreppinn 280 milljónir króna en húsið var formlega tekið í notkun í sumar.

Áfram verður fjárfest drjúgt 2025 og þá fyrir 175 milljónir króna sem er vegna lokaundirbúnings og svo upphaf framkvæmda við allra fyrsta bæjarkjarna hreppsins á jörðinni Hamborg en þar munu framkvæmdir hefjast strax á vormánuðum gangi allt eftir.

Á árunum 2026 til 2028 dregur úr stórum fjárfestingum en engu að síður eru þann tíma áætlaðar fjárfestingar sveitarfélagsins alls 155 milljónir króna.

Jákvæð afkoma öll árin

Samkvæmt áætlaðri útkomuspá fyrir 2024 verður afkoma A- og B hluta Fljótsdalshrepps jákvæð um tæpar 90 milljónir króna að afskriftum meðtöldum. Munar þar mest um eignasölu upp á 100 milljónir og söluhagnað fastafjármuna upp á 34 milljónir.

Sömu sögu er að segja af áætlunum frá 2025 til ársins 2028. Þann tíma gera heimamenn ráð fyrir jákvæðri afkomu um rúmar 136 milljónir króna. Fari allt eftir þeim bókunum verður handbært fé sveitarfélagsins í lok árs 2028 rétt tæpar 360 milljónir króna.

Heimild: Austurfrett.is