Home Fréttir Í fréttum Bæjarbúar geti gengið upp nýjar tröppur á leið í jólamessuna

Bæjarbúar geti gengið upp nýjar tröppur á leið í jólamessuna

30
0
Tröppur Akureyrarkirkju hafa verið lokaðar síðan í byrjun sumars 2023. Stefnt er á að því að opna þær að nýju fyrir jólamessuna á aðfangadag. RÚV – Anna Þorbjörg Jónasdóttir

Stefnt er á að Akureyringar geti gengið upp spánnýjar kirkjutröppur Akureyrarkirkju á aðfangadag. Ýmsar tafir hafa orðið á viðgerðinni sem meðal annars má rekja til kulda í sumar og jarðarfarahalds í kirkjunni.

<>

Tröppurnar hafa verið lokaðar síðan í byrjun sumars 2023. Til stóð að viðgerðin yrði kláruð strax um haustið sem svo tafðist fram á vor. Í sumar fengust svo þær upplýsingar að verkið yrði tilbúið í haust.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Akureyrarbæ verða tröppurnar vígðar fyrir jólamessuna á aðfangadag. Bæjarbúar mega því reikna með hátíðlegri aðkomu að kirkjunni en í fyrra þegar þeim gefst kostur á að taka fyrstu skrefin upp nýjar kirkjutröppur.

Byggingastjóri verkefnisins, Böðvar Þórir Kristjánsson, segir verkefnið hafa dregist á langinn vegna ýmissa tafa. Til að mynda hafi ekki verið hægt að vinna í einni beit yfir daginn alla daga. Hótelgestum KEA hafi þurft að sýna tillit sem og útfarargestum kirkjunnar.

Þá hafi veðrið einnig töluverð áhrif. Mikill kuldi, bæði í vetur og sumar, hafi gert það að verkum að byggja þurfti yfir hverja tröppueiningu, þar sem steypan hafi ekki þolað hita undir fimm gráðum.

Líka jákvætt að fólk leggi leið sína um Gilið
Starfsmenn Akureyrarkirkju hafa tekið framkvæmdunum með skilningi og æðruleysi. Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, segir eðlilegt að framkvæmd sem þessi taki tíma og spennandi verði að sjá afraksturinn.

Hildur segist það einnig jákvætt við lokunina að gangandi vegfarendur hafi í auknum mæli lagt leið sína upp Gilið og í leiðinni nýtt sér þá verslun og þjónustu sem þar er í boði.

Heimild: Ruv.is