Unnið verður í allan vetur við að leggja rúmlega tuttugu kílómetra af vegum og sinna annarri jarðvinnu vegna uppsetningar á vindmyllum á Vaðöldu fyrir ofan Búrfellsvirkjun. Snúið verður að koma vindmylluspöðum á staðinn.
Unnið verður af krafti í allan vetur við að leggja vegi og undirbúa jarðveg vegna uppsetningar á vindmyllum á Vaðöldu fyrir ofan Búrfellsvirkjun. Snúið verður að koma vindmylluspöðum á staðinn því þeir eru 70 metra langir og vegurinn inn á hálendið er kræklóttur á köflum. Þorvaldur Jóhannesson er verkstjóri hjá Borgarverki og stjórnar framkvæmdum: „Það gengur bara vel. Við erum bara að bíða eftir leyfum fyrir námur og svoleiðis. Það gengur bara mjög vel.“
Það verður ekkert slegið af á hálendinu í vetur: „Já, við ætlum að reyna það, stefna á það. Að vinna hér í allan vetur. Á hverjum einasta degi helst.“ Þorvaldur segir að það hafi ekki verið erfitt að fá menn til að vinna á hálendinu að vetri til þótt veður geti verið válynd. Hópurinn sé góður: „Það var bara mikil eftirspurn eftir að komast hingað.“
Vindmylluspaðar eru engin smásmíði og það þarf að fara krókaleiðir til að koma þeim í áfangastað. Elín Hallgrímsdóttir er verkfræðingur hjá Landsvirkjun: „Það þarf tiltölulega slétta vegi og við mögulega þurfum að víkka einhverja beygjuradíusa og annað, en það er í athugun hjá Vegagerðinni hvaða framkvæmdir þarf að fara í. Heldurðu að það þurfi að taka af einhver hringtorg? Það verður bara að koma í ljós.“
Útboð vegna byggingar á undirstöðum verður skömmu eftir jól.
Heimild: Ruv.is