Home Fréttir Í fréttum Fyrsta skóflustunga nýs Regluheimilis Oddfellow

Fyrsta skóflustunga nýs Regluheimilis Oddfellow

151
0
Mynd: Oddfellow.is

„Loksins, loksins”, sagði Guðmundur Eiríksson stórsír þegar skóflustunga var tekin að nýju Regluheimili Oddfellow á Urriðaholtinu, að viðstöddu fjölmenni. Mættir voru með skóflur af ýmsum gerðum, fulltrúar þeirra stúkna sem samþykktu að flytja starfsemi sína í Urriðaholtið, ásamt stórsír, sem flutti stutt ávarp fyrir athöfnina. Sagði hann þetta mikla gleðilstund í sögu Oddfellow á Íslandi, langþráðum áfanga hefði verið náð.

<>

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, var viðstaddur athöfnina og óskaði Oddfellowreglunni til hamingju með áfangann, og hlakkaði til áframhaldandi samstarfs við Oddfellowa um byggingu hússins. Sagði hann húsið kærkomna viðbót við hverfið í Urriðaholtinu.

Str. varastórsír, Hafdís Stefánsdóttir, taldi niður fyrir hópinn áður en skóflunum var stungið samtímis í jörð. Með stórsír telst til að skóflurnar hafi verið 19 talsins.

Að lokinni athöfn var öllum boðið í kaffisamsæti í Staðarbergið, Regluheimilið í Hafnarfirði. Þar voru samankomin um 150 Reglusystkini.

Framkvæmdir fara nú af stað á næstu mánuðum við byggingu Regluheimilisins. Eins og fram hefur komið voru það arkitektarnir hjá Krads ehf. og Trípóli ehf. sem áttu vinningstillöguna. Var samningur undirritaður við þá um að teikna Oddfellowhúsið og útfæra vinningstillöguna samkvæmt þörfum og óskum Reglusystkina.

Heimild: Oddfellow.is