„Þessar stöðvar eru barn síns tíma og kominn tími til að uppfæra þessa þjónustu,“ segir Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpu.
Framtíðarskipulag endurvinnslustöðva á höfuðborgarsvæðinu hefur verið til skoðunar síðustu mánuði. Á dögunum skilaði starfshópur af sér skýrslu um framtíðarskipulag þeirra og nú er unnið að því að skoða niðurstöðurnar á vettvangi Sorpu.
Meðal niðurstaðna skýrslunnar er að endurvinnslustöðvarnar séu þröngar og uppfylli ekki kröfur um gæði og öryggi. Miklar breytingar hafa orðið síðan fimm þessara stöðva voru opnaðar árið 1991. Þá var tekið á móti átta flokkum sorps en nú er tekið við yfir 40 flokkum.
Mikil umferð verktaka sem tæma gámana er um stöðvarnar og óhagræði er að því að blanda saman viðskiptavinum og verktökum. Nýjar og uppfærðar stöðvar eiga að vera með aðskilið aðgengi fyrir viðskiptavini og umrædda verktaka, lengri þjónustutíma og betra aðgengi í alla staði.
Allt að átta endurvinnslustöðvar
Í grófum dráttum má segja að í skýrslu starfshópsins séu dregnar upp fjórar framtíðarsviðsmyndir af fyrirkomulagi endurvinnslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Mun stjórn Sorpu ákveða eftir áramót hver þeirra verður fyrir valinu. Fyrsta sviðsmyndin gerir ráð fyrir sex stórum endurvinnslustöðvum.
Þar yrðu stöðvarnar við Breiðhellu, Blíðubakka, Jafnasel og Ánanaust en þær yrðu allar stækkaðar og endurbyggðar frá grunni eða lagfærðar. Við þær myndu bætast ný og fyrirhuguð stöð við Lambhagaveg og ný stöð sem koma á í stað þeirrar er nú er á Dalvegi í Kópavogi.
Sviðsmynd 2 gerir ráð fyrir fjórum stórum stöðvum; Lambhagavegi, nýrri stöð í stað þeirrar á Dalvegi, Ánanaustum og Breiðhellu. Sviðsmynd 3 gerir ráð fyrir fjórum stórum stöðvum; stóru stöðvunum fjórum sem eru í sviðsmynd 2 og tveimur minni við Jafnasel og Blíðubakka.
Sviðsmynd 4 gerir svo ráð fyrir fjórum stórum stöðvum og fjórum litlum. Þá myndu bætast við nýjar stöðvar í Reykjavík og í Hafnarfirði eða Garðabæ sem byggðar yrðu frá grunni.
Landfylling við Ánanaust?
„Ég myndi velja þann kost sem tryggir gott þjónustustig við íbúa enda horfa flestir á þetta sem nærþjónustu,“ segir Jón Viggó þegar hann er spurður hvaða sviðsmynd honum hugnist helst. „Fleiri stöðvar en færri,“ segir hann enn fremur.
Jón Viggó segir að nú sé verið að skoða kostina heildrænt og það verði stjórnarinnar að taka endanlega afstöðu. Til að setja hlutina í samhengi verður ný endurvinnslustöð við Lambhaga um 10 þúsund fermetrar að stærð sem er svipað og stöðin við Breiðhellu. Stöðin við Ánanaust er hins vegar 5-6 þúsund fermetrar að stærð. Eigi hún að flokkast með stærri stöðvum þarf að stækka hana umtalsvert og það yrði mögulega gert með landfyllingu.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu
Heimild: Mbl.is