Home Fréttir Í fréttum Leita leiða á Djúpavogi til að byggja hentugar smærri íbúðir fyrir „fólk...

Leita leiða á Djúpavogi til að byggja hentugar smærri íbúðir fyrir „fólk á besta aldri“

54
0
Eldri borgarar á Djúpavogi hafa síðustu árin vakið athygli á skorti smærri íbúða fyrir eldri borgara án mikilla undirtekta. Nú taka þau sjálf fyrsta skrefið. Mynd Austurland.is

Félag eldri borgara á Djúpavogi hefur átt í viðræðum við vana aðila á Hornafirði í því skyni að byggja hentugar smærri íbúðir á svæðinu fyrir alla þá sem komnir eru á „besta aldur.“ Fundur vegna þessa verður haldinn á mánudaginn kemur.

<>

Það raunin á Djúpavogi sem víðar að margt eldra fólk situr fast í tiltölulega stórum eignum sínum þar sem takmarkaðir möguleikar eru fyrir fólk á að minnka við sig þegar þörf og vilji er á.

Allnokkrir einstaklingar á Djúpavogi vilja bæta þar úr og þess vegna hefur Félag eldri borgara á svæðinu með Ólaf Áka Ragnarsson í fylkingarbrjósti fengið byggingaraðilann Verkfræðiþjónustuna ehf. frá Hornafirði til að kynna í Tryggvabúð á mánudaginn kemur hvort áhugi sé fyrir hendi til að fá þá aðila til að byggja nokkrar smærri íbúðaeiningar á staðnum.

Slíkt veltur vitaskuld á áhuga heimafólks að sögn Ólafs Áka sem fór sérstaka ferð til Hornafjarðar til viðræðna við umrætt fyrirtæki.

„Þetta fyrirtæki reka strákar frá Hornafirði sem hafa verið að gera þetta og ég fór og heimsótti annan þeirra. Hann vildi endilega koma til okkar og kynna þeirra hugmyndir í byggingu smærri íbúða sem væru hentugar fyrir alla sem vilja komast í minna.

Raunin er að það er töluvert af fólk á góðum aldri sem býr í stórum húsum og vill komast í minna en úrræðin eru bara ekki til staðar. Það hefur verið sárt að horfa á eftir fólki sem yfirgefur staðinn út af slíku því það er mikill auður í slíkum einstaklingum.

Eðlilega þá þarf fólk tiltekna þjónustu þegar komið er á aldur og við að horfa til þess að byggt verði á stað sem er sem næst öllu hér í bænum. Ég var um tíma bæjarstjóri í Ölfusi þar sem þetta var reynt og það lukkaðist mjög vel svo engin ástæða til annars en hægt sé að endurtaka leikinn hér.“

Fyrirtækið heldur kynningu á mánudaginn kemur og komi þar fram nægur áhugi nægilega margra er kominn grundvöllur fyrir frekari skoðun málsins.

„Allt svona þarf að skoða út frá þjónustunni sem í grennd er. Við sem erum komin á efri aldur viljum gjarnan vera í sem mestri hringiðu lífs á hverjum stað og erum með ákveðna staðsetningu í huga ef af þessu verður. Hér erum við að tala um stað beint út af voginum. Þetta er á milli tveggja húsa hér og við innfæddir köllum þetta Bjargstún en það svæði í nálægð við ýmsa þjónustu hér.“

Kynningarfundurinn hefst klukkan 15 á mánudaginn kemur og allir þangað velkomnir.

Heimild: Austurfrett.is