Home Fréttir Í fréttum Þjóð­vegurinn upp í Þjórs­ár­dal færist vegna Hvammsvirkjunar

Þjóð­vegurinn upp í Þjórs­ár­dal færist vegna Hvammsvirkjunar

65
0
Neðan við bæinn Fossnes verður Þjórsárdalsvegur látinn liggja á uppbyggðum garði. Vegagerðin/Landsvirkjun/Efla

Inntakslón sem myndast vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar veldur því að færa þarf Þjórsárdalsveg á um fimm kílómetra löngum kafla. Ný veglína er sýnd á myndbandi sem Landsvirkjun og Vegagerðin hafa kynnt íbúum nærsveita.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndbandið sem sýnir breytinguna þegar 350 metra löng stífla rís þvert yfir farveg Þjórsár með Hvammsvirkjun. Við það myndast fjögurra ferkílómetra inntakslón, nefnt Hagalón.

Lónið mun ekki aðeins setja flúðir sem þarna eru í ánni á kaf heldur fer þjóðvegurinn einnig undir vatn á löngum kafla. Allnokkuð af grónu þurrlendi fer sömuleiðis undir lónið.

Gert er ráð fyrir áningarstað við bakka Hagalóns.
Vegagerðin/Landsvirkjun/Efla

Myndbandið var birt á kynningarfundum með íbúum Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra í síðustu viku en það sýnir nánar hvernig ætlunin er að breyta Þjórsárdalsvegi á þessum kafla. Meðaldýpi í lóninu verður um 3,3 metrar en mesta dýpi um tólf metrar.

Mesta breytingin verður við bæina Fossnes og Haga. Neðan Fossness mun lónið mynda vík inn í landið og verður þjóðvegurinn látinn liggja yfir víkina á stórum garði.

Við bæinn Fosssnes myndar Hagalón vík inn í landið.
Vegagerðin/Landsvirkjun/Efla

Talsverð breyting verður einnig á vegstæðinu á móts við bæinn Haga. Þar færist vegurinn fjær bænum út að ánni og mun þar virka sem einskonar varnargarður á um þriggja kílómetra kafla.

Gert er ráð fyrir áningarstað þar sem ferðamenn og aðrir vegfarendur geta teygt úr sér, virt lónið fyrir sér og horft til Búrfells og Heklu. Hagaey verður þó sokkin að hálfu og flúðirnar í ánni horfnar.

Við Haga færist vegurinn fjær bænum og nær Þjórsá. Flúðir í ánni á þessum stað hverfa í lónið.
Vegagerðin/Landsvirkjun/Efla

Á myndböndunum er svæðið einnig sýnt í vetrarbúningi en vegna lónsins þarf að færa vegstæðið á um fimm kílómetra kafla.

Landsvirkjun mun borga vegagerðina að mestu og er stefnt að því að hún verði boðin út næsta vor, svo fremi að kærumál, sem enn eru í gangi, stöðvi ekki Hvammsvirkjun.

Heimild: Visir.is