Home Fréttir Í fréttum Rafmagnsmastrið við Svartsengi komið upp

Rafmagnsmastrið við Svartsengi komið upp

19
0
Rafmagnsmastrið er innan varnargarðanna. – RÚV

Vonast er til að rafmagnsframleiðsla hefjist aftur í Svartsengi um helgina. Nýtt mastur var reist innan varnargarðanna í nótt. Ólíklegt er að hægt verði að opna Bláa lónið í vikunni.

<>

Vinnu við að koma upp rafmagnsmastri innan varnargarðanna í Svartsengi er lokið og vonir standa til að búið verði að tengja það um helgina. Leiðindaveður hefur gert verktökum erfitt fyrir og ólíklegt er að takist að opna Bláa lónið á föstudag eins og áætlað var.

Lokið var við að reisa þrjátíu metra hátt mastrið fyrir innan varnargarðana í gærkvöld og Landsnet hefur hafist handa við að draga línuna yfir hraunið. Engin rafmagnsframleiðsla hefur verið í Svartsengi síðan mastrið féll. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er vonast til að rafmagn komist á um helgina.

Jón Haukur Steingrímsson, verkfræðingur hjá Eflu, stýrir aðgerðum.

„Það er verið að keyra á fullu í varnargarðana og fyllingar í tengslum við reisinguna á mastrinu fyrir Landsnet í gær, þetta gekk bara mjög vel að keyra þetta saman – þessa fyllingu og koma mastrinu upp,“ segir Jón Haukur.

Veðrið hefur verið óhagstætt og aðeins er hægt að strengja vírinn í björtu.

„Ef það herðir á veðrinu þá geta allar áætlanir gengið úr skorðum og svo er mikið skítviðri í kortunum um helgina,“ segir hann.

Þá hefur ekkert verið unnið við bílaplanið við Bláa lónið enn sem komið er. Áætlanir gerðu ráð fyrir að lónið yrði opnað að nýju á föstudag. Fréttastofa hefur ekki náð tali af Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra hjá Bláa lóninu, í dag.

„Bláa lónið er í þeirri stöðu að það er bara ein aðkomuleið og sú aðkomuleið er fyrst og fremst um vinnusvæði með mjög þungri umferð stórra vinnuvéla, þannig að það er töluvert langt í það að þar sé umhverfið orðið þannig að fólk geti bara hreyft sig á vegunum, og þá eru bílastæðamál og flóttaleiðir og aðgengi slökkviliðs og alls kyns svoleiðis úrlausnarefni,“ segir Jón Haukur.

Heimild: Ruv.is