Home Fréttir Í fréttum Góður árangur af hraunkælingu við varnargarðana

Góður árangur af hraunkælingu við varnargarðana

9
0
Hraunkælingin mun fara fram á meðan vinna verður í gangi við að hækka varnargarðana. Vísir/Vilhelm

Helgi Hjörleifsson, aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og hraunkælingarstjóri, segir hraunkælinguna ganga vel við varnargarðana í Svartsengi. Það sé nægt vatn til eins og stendur. Tvær af fjórum dælum eru í gangi.

<>

„Það sem við erum að gera er að kæla hraunið með fram varnargarði L3 og erum að hefja kælingu við varnargarð L4,“ segir Helgi og það sé nú verið að undirbúa farveginn fyrir varnargarðaverktakana.

Varnargarðarnir verja alla starfsemi í Svartsengi og Bláa lónið.
Vísir/Vilhelm

Hraunkæling hófst á laugardag. Fram kom í tilkynningu frá Veðurstofunni í morgun að dregið hefði hægt og lítillega úr gosóróa og sýnilegri virkni á Sundhnúksgígaröðinni frá því um kvöldmatarleytið í gær en að eldgosið hafi svo náð stöðugleika aftur um klukkan tvö í nótt.

„Við teljum okkur sjá árangur. Ég er enginn hraunsérfræðingur en tilfinningin er sú að það sé árangur miðað við það hvernig þetta leit út fyrir tveimur dögum síðan. Þá voru augu að opnast í hraunkantinum sem við náðum að sprauta á,“ segir Helgi og að stuttu seinna hafi kanturinn verið orðinn dökkur og augun farin.

Búnaðurinn sem er í notkun eru fjórar stórar dælur og dælir hver þeirra um 13 þúsund lítrum á mínútu.

„Við erum með tvær í gangi núna,“ segir Helgi en að auk þess séu fjórir kílómetrar af tíu tommu slöngum og sex kílómetrar af fimm tommu slöngum.

Hann segir smá vatnsskort vegna kuldans því það fari meira í að hita húsin á Reykjanesi en vatnið nægi í það sem þeir eru að gera.

Heimild: Visir.is