Home Fréttir Í fréttum Fyrsta skóflustungan var tekin að nýrri Ölfusárbrú

Fyrsta skóflustungan var tekin að nýrri Ölfusárbrú

41
0
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. RÚV – Guðmundur Bergkvist

Fyrsta skóflustungan að nýrri Ölfusárbrú var tekin í dag. Enn á þó eftir að ljúka við hönnun og jarðvegsrannsóknir áður en framkvæmdir geta hafist að fullu.

<>

Fyrsta skóflustungan að nýrri Ölfusárbrú var tekin í dag. Enn á þó eftir að ljúka við hönnun og jarðvegsrannsóknir áður en framkvæmdir geta hafist að fullu.

Alþingi samþykkti skömmu fyrir þinglok frumvarp sem heimilar ráðherra að ganga að samningum við verktaka um byggingu brúarinnar. Samkomulagið var undirritað í dag og að svo búnu tók fjármálaráðherra fyrstu skóflustunguna bökkum Ölfusár – tíu dögum fyrir kosningar.

„Það var bara mikilvægt að klára þetta. Að það skuli gerast með þessum aðdraganda var bara tilfellið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.

Enn þó á eftir að ljúka við hönnun brúarinnar. Hönnun og framkvæmd er í höndum verktakafyrirtækisins ÞG Verks.

Þorvaldur H. Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, segir jarðvegsrannsóknir standa yfir og í kjölfarið hefjist framkvæmdir á staðnum.

RÚV / Guðmundur Bergkvist

Gamla brúin að verða áttræð
Ný brú hefur verið lengi í burðarliðnum. Sú gamla er orðin 79 ára gömul og umferð langt umfram það sem hún var hönnuð fyrir. Um fimmtán þúsund bílar aka að meðaltali um brúna á dag. Gert er ráð fyrir að nýja brúin verði risin árið 2028.

Heildarkostnaður er 17,9 milljarðar króna og hana á að fjármagna til hálfs með veggjöldum. Gamla brúin verður þó enn opin fyrir þá sem vilja komast hjá gjaldtöku. Ráðherra hefur ekki áhyggjur af að bjartsýn tekjuáætlun standist ekki.

„Ég segi það í dag, veggjöldin munu standa undir öllum kostnaðinum. Umferðin mun vaxa og sniðgangan verður minni en fólk hefur áætlað.“

Svona sjá menn fyrir sér að ný Ölfusárbrú geti litið út, samkvæmt forhönnun. Enn á þó eftir að ljúka við hönnun brúarinnar.
RÚV – Vegagerðin

Heimild: Ruv.is