Home Fréttir Í fréttum Sala íbúða við Steindórsreit í takt við væntingar

Sala íbúða við Steindórsreit í takt við væntingar

26
0
Framkvæmdir á reitnum hófust haustið 2021 en í húsunum þremur eru 84 íbúðir talsins.

Rúmlega 60 íbúðir af 84 eru enn óseldar við Steindórsreit en fasteignasalan segir söluna í samræmi við áætlun.

<>

Gunnar Sverrir Harðarson, einn af aðaleigendum Re/Max, segir að sala á nýjum íbúðum við Steindórsreitinn svokallaða, sem markast af Framnesvegi, Sólvallagötu og Hringbraut, gangi vel og sé í samræmi við væntingar.

Framkvæmdir á reitnum hófust haustið 2021 en í húsunum þremur eru 84 íbúðir talsins. Af þeim eru 83 á almennum íbúðamarkaði en ein íbúð er í eigu húsfélagsins.

Auk íbúðanna er rými á jarðhæð hússins fyrir verslun og þjónustu en undir húsunum er einnig bílakjallari með stæði fyrir 86 bíla.

Gunnar segir að verkefnið sé nú á lokametrunum og að þær íbúðir sem hafa verið keyptar séu meira og minna tilbúnar. “Við erum núna að parketleggja og setja upp ísskápa, uppþvottavélar, gardínur og fleira þannig þetta verði allt tilbúið til afhendingar.”

Svæðið sem hýsir Steindórsreitinn hefur verið mikið til umræðu í haust en í lok september var greint frá því að Vinnumálastofnun og nýir eigendur JL-hússins að Hringbraut 121 hefðu samið um að nýta JL-húsið sem gistirými fyrir flóttafólk.

Áætlunin hafði verið til umræðu í einhvern tíma en Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi Subway á Íslandi, setti til að mynda fram lögbannsbeiðni í nóvember 2023 við því að aðrir eigendur hússins myndu starfrækja gistiaðstöðu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Félagið HB121 ehf. gekk svo í sumar frá kaupum á JL-húsinu í heild sinni og greiddi tæplega 1,6 milljarða króna fyrir allt atvinnuhúsnæðið að Hringbraut 121.

Góð vara og eftirspurn á markaðnum
Samkvæmt heimasíðu Grandatorgs eru rúmlega 60 íbúðir sem enn eru enn til sölu við Steindórsreit. Gunnar Sverrir segir að það sé töluverður áhugi á þeim óseldu íbúðum og hafa margir mögulegir kaupendur undanfarið verið að skoða og pæla.

„Þetta eru íbúðir sem eru á tiltölulega eðlilegu verði fyrir nýbyggingar í miðbænum. Þar er líka gott útsýni til sjávar og stutt í miðbæinn, þannig ég held að þetta muni ganga mjög vel,“ segir hann og bætir við að þegar litið er á markaðsþróun þá sé eðlilegt að það taki einhverja mánuði að selja þegar kemur að húsi af þessari stærðargráðu.

„Við erum samt með góða og vandaða vöru í höndunum og erum til að mynda að setja upp listaverk eftir Steinunni framan á húsið í samstarfi við Reykjavíkurborg. Þetta er mjög falleg stytta sem mun koma til með að lyfta andliti á svæðinu.“

Heimild: Vb.is