Home Fréttir Í fréttum Opinberar stofnanir kærðar 145 sinnum á 5 árum

Opinberar stofnanir kærðar 145 sinnum á 5 árum

70
0
Landspítalinn, Ríkiskaup, Vegagerðin og Reykjavíkurborg eru þær stofnanir sem oftast hafa verið kærðar til kærunefndar útboðsmála vegna opinberra innkaupa á undanförnum fimm árum. Alls voru opinberar stofnanir kærðar í 145 tilfellum á tímabilinu.

Félag atvinnurekenda (FA) hefur boðað til fundar í fyrramálið um útboðsmál ríkisins, en það telur að ríkið geti sparað skattgreiðendum háar fjárhæðir með skilvirkari útboðum. Í aðdraganda fundarins tók félagið saman lista yfir þær opinberu stofnanir sem oftast hafa verið kærðar til kærunefndar útboðsmála vegna opinberra innkaupa á undanförnum fimm árum.

<>

Þar kemur fram opinberar stofnanir voru kærðar 145 sinnum til kærunefndarinnar á tímabilinu. Þar af var Landspítalinn kærður í 25 skipti og Ríkiskaup 19 sinnum. Þá var Vegagerðin kærð 17 sinnum, Reykjavíkurborg í 16 skipti og loks Isavia í 9 tilfellum. Kærumál stofnananna á tímabilinu voru 86 talsins, sem er ríflega helmingur málanna.

Duglegustu stofnanirnar tróna á toppnum

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir málin of mörg en það komi ekki á óvart hvaða opinberu stofnanir tróni á toppnum, þær séu hvað duglegastar að bjóða út, á meðan aðrar geri það alls ekki.

„Það er mjög algengt að það sé kært vegna þröngra útboðslýsinga. Þá er vissulega boðið út, en ríkisstofnunin er í rauninni búin að ákveða hvaða vöru hún vill fá og miðar lýsinguna við hana,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu. „Þá er náttúrulega ekki verið að ýta undir samkeppni eða að reyna að fá sem hagstæðasta verð fyrir skattgreiðendur. Það er líka talsvert kært vegna rammasamninga og við höfum dæmi um það að kannski tvö fyrirtæki eða fleiri fá samning við ríkið, teljast hafa boðið það hagstætt, svo er bara verslað við eitt fyrirtæki. Það er ekki heldur þannig sem þetta á að virka.“

Vilja skapa heilbrigðara viðskiptaumhverfi

Ólafur segir að í fimmtungi tilfella hafi fyrirtæki erindi sem erfiði, sem leiði þó sjaldnast til greiðslu skaðabóta, í öðrum tilfellum sé kærum vísað frá. Tilgangurinn sé fyrst og fremst að skapa heilbrigðara viðskiptaumhverfi. Hann telur að málin séu fleiri, kannanir hafi sýnt að fyrirtæki veigri sér við að kæra.

„Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga um opinber innkaup. Við höfum lagt til að atvinnuvegasamtök, eins og okkar og fleiri, fái heimild til að kæra útboð. Það er slík heimild fyrir hendi til dæmis í Danmörku,“ segir Ólafur. „Það myndi þýða að fyrirtækin þyrftu ekki alltaf sjálf að kæra. Við sjáum það að menn veigra sér við að kæra, óttast það að það bitni á þeim í framtíðarútboðum. Með þessari leið væri komið í veg fyrir það og aðhaldið að ríkinu væri engu að síður til staðar.“

Heimild: Rúv.is