Home Fréttir Í fréttum Fjármögnun á kjarna kaupfélagsins ólokið

Fjármögnun á kjarna kaupfélagsins ólokið

114
0
Rósasel

Framkvæmdum við nýjan verslunarkjarna Kaupfélags Suðurnesja seinkar fram á haust.

<>

„Við gerðum okkur vonir um að framkvæmdir gætu hafist á fyrri hluta ársins en nú stefnir í að það verði ekki fyrr en í september. Miðað við okkar áform er verkefninu því að seinka um einhverja sex til átta mánuði,“ segir Skúli Þ. Skúlason, stjórnarformaður Kaupfélags Suðurnesja, aðspurður hvernig fjármögnun verslunarkjarnans Rósaselstorgs, sem félagið vill byggja skammt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, miði.

„Það eru engir aðrir fjárfestar komnir að verkefninu en það eru viðræður í gangi. Þetta fer eftir því hvort við gerum þetta einir eða fáum aðra kjölfestuaðila til að leggja fjármuni inn í þetta,“ segir Skúli.

Skipulagið tefur

Áform Kaupfélags Suðurnesja um að byggja Rósaselstorg, á um 20 þúsund fermetra lóð við síðasta hringtorgið áður en komið er að flugstöðinni, voru kynnt í byrjun þessa árs. Stóð þá til að framkvæmdir hæfust á vormánuðum og þeim lyki á árinu 2017. Kaupfélagið vill reka Nettó-matvöruverslun í kjarnanum og hefur leitað samstarfsaðila sem gætu séð um rekstur veitinga- og kaffihúss og bensínstöðvar. Skúli sagði í samtali við DV í byrjun janúar að heildarkostnaður verkefnisins yrði á bilinu 600 til 1.000 milljónir króna. Viðræður kaupfélagsins við olíufélög, banka og fyrirtæki í veitingarekstri voru þá hafnar.
Stjórnarformaðurinn Skúli Þ. Skúlason segir nú að svo geti farið að Kaupfélag Suðurnesja standi undir öllum kostnaði við byggingu verslunarkjarnans.

„Skipulagsmálin eru aðeins tafsamari en maður gerði sér von um í upphafi. Keflavíkurflugvöllur fór í breytingar á aðalskipulagi flugvallarins. Það tók sinn tíma með athugasemdum og öðru og þá þurfti að ganga frá skilmálum sem sveitarfélagið og svæðið sameinast um. Síðan er sveitarfélagið Garður að undirbúa nýtt aðalskipulag og svo er deiliskipulagshlutinn,“ segir Skúli og heldur áfram:

„Að öðru leyti er þetta allt á áætlun. Það er tvennt sem kemur til greina; að kaupfélagið byggi helming verslunarkjarnans eða allt saman. Við höfum fundað með öllum bönkunum og erum að vinna með samstarfsaðilum sem koma inn í þetta með okkur og viljum klára það áður en við lokum fjármögnuninni.“

Fá að hanna

Skúli segir framkvæmdir við verslunarkjarnann koma til með að taka um tólf til sextán mánuði eftir að þær komist á fullt skrið. Hann útilokar ekki að kaupfélagið sjái á endanum alfarið um fjármögnun verkefnisins. Í janúar fullyrti hann að kaupfélagið myndi ekki fjármagna verkefnið eitt og sér enda væri það tiltölulega nýkomið úr fjárhagslegri endurskipulagningu. Á árunum 2012 til 2014 tókust samningar við lánardrottna kaupfélagsins sem fólu í sér verulega lækkun skulda og greiðslubyrði lána. Endanlegur kostnaður við byggingu Rósaselstorg liggur ekki fyrir þar sem kjölfestuleigutökum verður boðið að hafa áhrif á hönnun mannvirkja á reitnum.

„En það er ekki markmiðið að kaupfélagið standi eitt að þessu heldur að koma verkefninu í gang því þetta er gott verkefni. Við skilgreinum okkur sem hreyfiafl framfara og þetta er partur af því.“

Heimild: Dv.is