Home Fréttir Í fréttum Reisa nýja meðferðarstöð á Kjalarnesi

Reisa nýja meðferðarstöð á Kjalarnesi

260
0
Mynd: THG Arkitektar

Framkvæmdir eru nú hafnar við byggingu nýrrar meðferðarstöðvar SÁÁ í Vík á Kjalarnesi. Jarðvegsvinna stendur yfir og í lok næsta árs eiga nýbyggingar að standa tilbúnar til að verða teknar í notkun. Þarna rís fullkomin og nútímaleg meðferðarstöð. Karlar og konur fá meðferð í aðgreindum álmum.

<>

„Í hinni nýju aðstöðu í Vík verðum við með 40 karlmenn og 21 konu í meðferð á Vík á hverjum tíma, sem koma þá í framhaldi af dvöl á sjúkrahúsinu á Vogi. Það er sami fjöldi og í Vík og á Staðarfelli í dag þannig að umfang meðferðarstarfsemi SÁÁ er ekki að aukast með þessu. Aðbúnaður verður hins vegar miklu betri. Allir sjúklingar verða í eins manns herbergjum. Átta herbergi verða sérstaklega útbúin fyrir hreyfihamlaða og með eigin snyrtingu. Starfsmenn verða eitthvað á bilinu 10 til 15 talsins og vakt allan sólarhringinn,“ segir Arnþór Jónsson formaður SÁÁ í samtali við Vesturland.

Fylla fertugt 2017

Með stórbættri og fullkominni aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk SÁÁ eflast væntingar um að enn betri árangur náist í meðferðinni. Aðskildar byggingar verða fyrir matsali, setustofur, fyrirlestra og meðferðarhópa karla og kvenna.

Áætlanir gera ráð fyrir að nýja meðferðarstöðin standi fullbúin í október 2017. Um leið og hún verður tekin í notkun mun SÁÁ hætta starfsemi í húsnæði gamla húsmæðraskólans á Staðarfelli í Dölum þar sem samtökin hafa rekið meðferðarstöð í ein 35 ár.

„SÁÁ verða 40 ára á næsta ári. Það er mjög hár aldur í þessum bransa. Liður í að halda upp á þetta afmæliverður að opna nýja meðferðarstöð í Vík á Kjalarnesi. Það verður vissulega söknuður af því að fara frá Staðarfelli. Það er alveg frábær staður og hvergi betra að vera en því fylgja þó ýmsir ókostir í framkvæmd. Gamla húsmæðraskólahúsið á Staðarfelli er háð miklum takmörkunum. Í því er ekki hægt að reka heilbrigðisþjónustu samkvæmt nútíma kröfum.
Það vantar aðgengi fyrir hreyfihamlaða og það er engin lyfta í húsinu. Það er sömuleiðis allt eitt brunahólf. Elsti hluti hússins er orðinn um 90 ára gamall og viðhald á því er mjög erfitt. Svo eru það aðrir þættir svo sem netsamband. Það er slæmt á Staðarfelli og stundum ekki neitt. Stundum eru líka vandræði með vatnsrennsli. Við erum að nota olívélar til að framleiða rafmagn, kynda og dæla vatni svo það sé hægt að koma því upp á efri hæðir hússins. Svona hlutir geta á vissan hátt haft yfir sér rómantískan blæ en svara ekki nútíma kröfum í heilbrigðisþjónustu,“ segir Arnþór.

Ná fram hagræðingu

Sú ákvörðun að byggja upp í Vík á Kjalarnesi og hætta starfsemi á Staðarfelli á Fellsströnd í Dölum er tekin eftir vandlega íhugun. „Við höfum verið að velta þessu fyrir okkur í ein tíu ár. Vissulega var sá kostur skoðaður að byggja upp á Staðarfelli. Kostirnir þar eru meðal annars að þaðan er mjög lítið brottfall úr meðferð. Reksturinn þar er þó dýrari en í Vík, einkum vegna fjarlægðarinnar frá höfuðborgarsvæðinu. Með meiri nálægð við Vog nást fram samlegðaráhrif og betri nýting til dæmis á tíma starfsfólks og í ýmsum rekstrarþáttum svo sem við þvotta og mötuneyti,“ segir Arnþór.

Formaður SÁÁ bendir á að góð reynsla sé af rekstri meðferðarstöðvar í Vík. „Reyndar hafa verið uppi áhyggjur um að meira brottfall yrði úr meðferð þar heldur en á Staðarfelli því Vík er svo nálægt höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er hægt að vega móti þessu þar með bættum aðbúnaði, betri meðferð

og þjónustu sem fylgir því að flytja í nýtt og sérhannað húsnæði. Um leið og við byggjum nýtt munum við einnig gera upp eldri byggingarnar í Vík sem eru orðnar 25 ára gamlar og færa þær til nútímalegra horfs. Það verður alveg skipt á milli karla og kvenna. Þeir verða í einu húsi og þær í öðru og enginn samgangur þar á milli. Þetta verður algerlega kynskipt, sér matsalir fyrir kynin og hvaðeina.“

Aðspurður segir Arnþór að áætlaður kostnaður við nýbyggingarnar í Vík hljóði upp um 900 milljónir króna. „Þessa dagana höfum við verið að bjóða út verkþætti og opna tilboð. Hingað til höfum við fengið hagstæð tilboð sem eru undir áætlun.“ Hann dregur ekki dul á að talsverðrar eftirvæntingar gæti varðandi þetta nýja húsnæði. „Þegar þessi nýju hús eru risin þá verður öll heilbrigðisþjónusta samtakanna í húsnæði sem þau sjálf hafa byggt og fengið sérhannað að eigin þörfum og þjónustu. Það verður allt mjög fínt, nýtt eða nýlegt og engin vandamál sem fylgja eldra húsnæði svo sem myglusveppur og þess háttar. Þetta verður mikil breyting til batnaðar.“

Veruleg umsvif vestra

Í framhaldi af þessum orðum Arnþórs beinist spjallið aftur að Staðarfelli. Hann segir að SÁÁ hafi gegnum tíðina borið verulegan kostnað af því að vera með starfsemi þar. „Ríkið á húsnæðið og SÁÁ hefur afnot af því samkvæmt samningi þar um. Í okkar hlut fellur að sjá um það og sinna viðhaldi gegn því að við fáum að nota það. Þetta er í raun gjaldið fyrir að fá að vera þarna. Við höfum sinnt mjög stórum viðhaldsverkefnum þarna,svo sem að klæða gamla skólahúsið og skipta um þak á því.“

Umfang starfseminnar á Staðarfelli hefur verið töluvert. „Þetta eru um um 30 sjúklingar á hverjum tíma á Staðarfelli eða um 300 manns sem fara þarna í gegn árlega. Síðan eru um fimm ráðgjafar og matsveinn. Þannig eru 6 til 7 starfsmenn í kringum þetta. Alls eru þetta um 40 manns sem hafa viðveru á Staðarfelli með þessum hætti þó fólkið eigi ekki lögheimili í Dalabyggð. Þessari starfsemi fylgir síðan kaup á vörum og ýmiss konar þjónustu í sveitarfélaginu. Það er heilmikið í kringum þetta. Reksturinn á Staðarfelli er sjálfsagt með stærri fyrirtækjum í sveitarfélaginu,“ segir Arnþór Jónsson formaður SÁÁ.

Heimild: Pressan.is