Sú niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í vikunni að fella úr gildi deiliskipulag fyrir reit við Holtsgötu og Brekkustíg í Vesturbæ Reykjavíkur á þeirri forsendu að ekki hafi verið færð nægilega sterk rök fyrir því hvernig ný byggð, sem þar var fyrirhuguð, samræmist markmiðum borgarverndarstefnu í aðalskipulagi, virðist ekki eiga sér fordæmi.
Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur, sem þekkir vel til skipulagsmála í borginni, sagðist að minnsta kosti í samtali við Morgunblaðið ekki þekkja önnur slík dæmi.
Tvær kærur bárust nefndinni vegna deiliskipulagsins, önnur frá Árna Birni Helgasyni, sem býr á Holtsgötu 13, fyrir hönd hóps íbúa á svæðinu. „Við erum afar ánægð fyrir hönd umhverfisins í kringum okkur,“ sagði Árni Björn við Morgunblaðið. „Vonandi verður þetta endirinn á þessu máli.“
Páll Kr. Svansson, sem sótti um deiliskipulagið, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki vilja tjá sig um málið að svo stöddu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is