Home Fréttir Í fréttum Gagnrýnir 200 milljón króna kostnað í verkefni sem er hvorki hafið né...

Gagnrýnir 200 milljón króna kostnað í verkefni sem er hvorki hafið né í forgangi

126
0
Þegar hafa tvö hundruð milljónir farið í verkefnið sem er enn á hugmyndastigi og er ekki í forgangi. RÚV – Ragnar Visage

Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýnir mikinn kostnað vegna fyrirhugaðra umbreytinga á Grófarhúsinu svokallaða sem hýsir meðal annars Borgarbókasafn Reykjavíkur.

<>

Kostnaður vegna fyrirhugaðrar umbreytingar Grófarhúss er kominn í tæplega tvö hundruð milljónir króna að því er fram kemur í bókun Sjálfstæðisflokksins í Menningar-, íþrótta- og tómstundarráði Reykjavíkurborgar.

Þá segir enn fremur í bókuninni að þessi kostnaður veki furðu í ljósi þess að verkefnið er enn á hugmyndastigi. Meirihluti borgarstjórnar segir verkefnið ekki í forgangi en skynsamlegt sé að búa í haginn.

Þörf á viðhaldi, ekki algjörri umbreytingu

Borgarbókasafnið, Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur eru í húsinu og var ráðist í kostnaðarsamar endurbætur á húsinu þegar flutt var inn á sínum tíma samkvæmt bókun Sjálfstæðisflokksins, sem bætir við: „Þótt þörf sé á ákveðnu viðhaldi er ekki brýn þörf fyrir algera og fokdýra umbreytingu á húsinu eins og meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar stefnir að.“

Þá kemur fram að í október síðastliðnum var heildarkostnaður við umbreytingu hússins áætlaður um fimm milljarðar króna. Kostnaður við hönnun og verkefnastjórn er áætlaður 1.165 milljónir króna eða 22 prósent af heildarkostnaði við verkefnið að því er fram kemur í bókuninni.

Ekki verjandi að mati Sjálfstæðismanna

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Menningarráðinu gagnrýnir borgina fyrir að setja slíkt verkefni í forgang og bætir við: „Ekki er verjandi að ráðast í svo dýra framkvæmd, sem þar að auki felur í sér mikla kostnaðaráhættu, á meðan húsnæði borgarinnar liggur víða undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi og mygluskemmdir há starfi í mörgum skólum.“

Skynsamlegt að búa í haginn

Þessu mótmæla þó borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Framsóknar sem lögðu á móti fram bókun þar sem eftirfarandi kemur fram:

„Ekki er rétt að framkvæmdir vegna Grófarhúss hafi verið settar “í forgang”. Að undanförnu hefur staðið yfir hugmyndavinna og ákveðin vinna við hönnun og forhönnun.

Ekki stendur til að ráðast í framkvæmdir í húsinu í á næstu mánuðum en skynsamlegt er að búa í haginn til að hægt sé að ganga til verka þegar fjárfestingarsvigrúm er orðið meira.“

Heimild: Ruv.is