Home Fréttir Í fréttum Myndlistaskólinn skellir í lás þar til bætt er úr brunavörnum

Myndlistaskólinn skellir í lás þar til bætt er úr brunavörnum

59
0
Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistaskólans. RÚV – Amanda Guðrún Bjarnadóttir

Bæta þarf brunavarnir í nýju húsnæði Myndlistaskólans í Reykjavík. Þar var skellt í lás í gær og skólastarf hefst ekki fyrr en búið er að bæta úr. Skólastjórinn vonar að lokunin vari ekki nema í nokkra daga.

<>

Myndlistaskólanum í Reykjavík var skellt í lás síðdegis í gær. Bæta þarf brunavarnir áður en hann getur opnað að nýju, en skólastjórinn vonast til að það taki ekki langan tíma.

Skólinn flutti í nýtt húsnæði við Rauðarárstíg í miðborg Reykjavíkur í haust. Áður hafði hann verið til húsa í JL-húsinu úti á Granda. Skólinn er á þremur hæðum og búið að koma öllu vel fyrir, en enn á eftir standsetja nýjan samkomusal.

Eftir gærdaginn þarf hins vegar að skella í lás tímabundið. Slökkviliðið gerir athugasemd við eldvarnahurðir, skort á flóttaleiðum og að vatnsúðakerfi sé ekki enn komið í gagnið.

„Það var ekki gert ráð fyrir því í fyrstu teikningum. Svo fór það fram hjá okkur hér að það þyrfti að vera eldvarnahurð,“ segir Áslaug Thorlacius skólastjóri.

Vonandi ekki lokaður lengi
Myndlistaskólinn var stofnaður fyrir að verða áttatíu árum og í fyrstu bauð hann aðeins upp á námskeið fyrir áhugafólk.

Þegar Listaháskólinn var stofnaður varð til í skólanum fornámsdeild fyrir þá sem hyggja á frekara listnám. Það er ekki hlaupið að því að færa listnám yfir á netið.

„Nei, þetta er náttúrlega fyrirvaralaust. Við gerðum það reyndar í covid, þá fórum við með kennsluna á netið. En þá þurftu nemendur dálítinn tíma. Það tók tíma að koma sér upp aðstæðum,“ segir Áslaug.

Úrbæturnar hefjast strax á dag og Áslaug vonar að skólinn verði ekki lokaður lengi. Þegar búið er að skila úrbótaáætlun og fá samþykkta öryggisúttekt ætti skólinn að geta verið opnaður, þótt enn eigi eftir að ljúka úrbótum.

En þessu hlýtur að fylgja dálítill kostnaður?

„Ég veit ekki hvernig er með fjárhagslegan kostnað, en þetta tekur á okkur, bæði okkur sem vinnum við skólann en örugglega líka nemendur. Þetta er bara áfall. En við tökumst á við það.“

Heimild: Ruv.is