Altjón varð á raðhúsi við Kúrland í Fossvogi í fyrrinótt þegar mikill eldur kom upp. Tveir komust af sjálfsdáðum út úr húsnæðinu. Vettvangsrannsókn er lokið og samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu kviknaði í húsinu út frá rafmagni, nánar til tekið út frá straumbreyti sem stýrir ljósabúnaði.
„Bráðabirgðaniðurstaða segir að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni,“ segir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst útkallið um klukkan þrjú aðfararnótt sunnudags. Allt tiltækt slökkvilið var sent á staðinn. Mikill eldur og reykur barst frá húsinu.
Reykkafarar fundu heimilisdýr sem hafði ekki komist út og endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Íbúar húsnæðisins voru fluttir á slysadeild.
„Það er altjón á húsnæðinu,“ segir Guðmundur.
Heimild: Mbl.is